Um kórinn

Aðdragandi og stofnun

Veturinn 1964-5 komu nokkrir félagar sem unnu hjá Mjólkurbúi Flóamanna saman og æfðu söng sér til gamans. Þeir skemmtu svo á þorrablóti Mjólkurbúsins og þótti takast vel. Það varð til þess að þeir leituðu til fleiri manna með þá hugmynd að stofna karlakór og fengu víða góðar undirtektir. Stofnfundur kórsins var haldinn 2. mars 1965 og voru þar mættir 25 menn. Þá voru um það bil tíu ár liðin síðan síðast starfaði karlakór á Selfossi, Karlakórinn Söngbræður hafði hætt starfsemi árið 1954 þá átta ára gamall.

Nokkrir þeirra sem í þeim kór höfðu verið mættu nú til leiks á ný.

Á stofnfundinum var Skúli Guðnason kosinn formaður og Guðmundur Gilsson ráðinn söngstjóri. Skúli tók til máls á þessum fundi og mæltist til þess að æfingar hæfust hið fyrsta svo kórinn gæti sungið á skemmtun Kvenfélagsins á sumardaginn fyrsta.

Framhaldsstofnfundur var svo haldinn 30. mars, það var ákveðið að stofnfélagar skyldu þeir teljast sem gengju í kórinn á þessu ári. Á þeim fundi var einnig valið nafn á kórinn. Tvær tillögur komu fram, Söngbræður og Karlakór Selfoss, var hið síðara einróma valið í kosningu og hefur það reynst vel alla tíð síðan.

Fyrstu sporin

Þetta sumar 1965, söng kórinn á ýmsum skemmtunum á Selfossi og svo líka á landsmóti Ungmennafélaganna á Laugarvatni. Áhugi manna hefur í fyrstu verið svo mikill að ekki þótti tiltökumál að eyða einhverjum hluta sumarsins í söng við hin ýmsu tækifæri.

Aðalfundur var svo haldinn í september og var þá stjórnin endurkjörin.

Þá var rætt við Guðmund Gilsson um að hann stjórnaði kórnum þann vetur og var hann til viðræðu um það en taldi sig þurfa að taka fyrir það 10-15.000 krónur, sem stjórnin var ekki tilbúin að borga í fyrstu, þó fór svo að Guðmundur var ráðinn enda var kórinn ekki illa stæður á þessum tíma, í fundargerð aðalfundar segir “ að fjárhagurinn væri góður, sem helgast að hluta af styrk sem kórinn fékk frá Selfosshreppi”.

“Hreppurinn” hefur síðan árlega styrkt kórinn með peningaupphæð sem stundum er sagt að sungið sé fyrir á 17. júní.

Þennan fyrsta heila vetur var æft í Iðnskólanum og 16. apríl 1966 var fyrsti samsöngur kórsins í Selfossbíói kl. 17:00 þar var svo haldin árshátíð um kvöldið. Þetta vor hélt kórinn tónleika í samstarfi við Kirkjukór Selfosskirkju á Hvoli og á Flúðum.

Á aðalfundi í sptember 1966 hætti Skúli formennsku, hann hafði plægt akurinn og tekist það vel, Hjalti Þórðarson frá Kvíarholti tók við af honum.

Þetta haust var Guðmundur Gilsson farinn til starfa í Reykjavík og sá sér ekki fært að stjórna kórnum áfram og í hans stað var þá ráðinn Einar Sigurðsson, hann tók starfið líklega að sér að mestu fyrir ánægjuna en fékk þó í vetrarlok greiddar 10.000 krónur.

Jakobína Axelsdóttir sá um undirleik og Einar Sturluson söng einsöng með kórnum á vortónleikum.

Þennan vetur var söngur kórsins í fyrsta sinn tekinn upp fyrir útvarp, það voru tvö lög sem síðan voru flutt í útvarpinu í júní 1967.

Fyrstu árin var kórinn í eilífu húsnæðishraki, það var æft í Selfossbíói í hliðarsal sem var kallaður Bíóskálinn. Þar voru aðalfundir  einnig haldnir, stjórnarfundir voru oftast í heimahúsum, svo var æft í Iðnskólanum og Tónlistarfélagið studdi vel við bakið á kórnum bæði með láni á húsnæði og hljóðfæri.

Húsnæðiskostnaður var reyndar enginn, allt var þetta húsnæði lánað, Selfossbíó krafðist ekki húsaleigu vegna tónleikahalds.

Raddæfingar voru haldnar meðfram samæfingum, Einar Sturluson var raddþjálfari og einnig Anna Eiríksdóttir í Fagurgerði. Þær raddæfingar hélt hún í stofunni sinni heima. Kórmenn voru á þessum tíma oftast á bilinu 20-30 og æfingar tvisvar í viku.

Það kom fljótt á daginn að peninga þyrfti til að reka karlakór, söngstjóri og undirleikari þurftu sitt, raddþjálfun og jafnvel stuttar rútuferðir, á þessum tíma greiddu félagar engin æfingagjöld, innkoma á tónleikum sem ekki voru allir vel sóttir og “hreppsstyrkurinn”mátti heita það sem varð að nægja. Á fundi stjórnar 3.júní 1967 var samþykkt að standa að sælgætis og ölsölu 17. júní í samstarfi við önnur félög, þó með þeim skilyrðum eins og sagt er í fundargerð “að sala fari ekki fram á meðan hátíðardagskrá stendur yfir, og að blöðrur og skrípahattar verði ekki til sölu á þessum sjoppum né annarsstaðar”. Menn urðu að halda sinni virðingu þó í fjárþröng væru.

Á aðalfundi í september 1967 var fyrsta nefndin kosin, það var skemmti og ferðanefnd og þá eru endurskoðendur einnig komnir til sögunnar.

 

Hvar er Samband íslenskra karlakóra?

Árið 1968 var sótt um inngöngu í Samband íslenskra Karlakóra og svo leitað þar eftir styrk sem ekki fékkst við fyrstu tilraun.

Styrkurinn frá hreppnum var hins vegar 10.000 kr. það ár.

Undirleikari kórsins veturinn 1967-8 var Heimir Guðmundsson frá Eyrarbakka og tók hann ekki gjald fyrir.

Á aðalfundi haustið 1968 voru eignir kórsins kr. 12.040,55 í bankabók nr. 429.  Á þeim sama fundi kom fram að Einar Sigurðsson myndi hætta söngstjórn og eftir viðtöl við ýmsa menn féllst Pálmar Þ. Eyjólfsson á að taka að sér stjórnina.

Veturinn 1968-9 var æft í Gagnfræðaskólanum  og svo í sal Skarphéðins, þar var leiga greidd með söng á Héraðsmóti Skarphéðins á Þjórsártúni.

Abel Rodrique Lorella var undirleikari þennan vetur og Eiríkur Bjarnason og Gunnar Á. Jónsson bættust í hóp raddþjálfara.

Um vorið voru haldnir tónleikar með Lúðrasveit Selfoss í Þorlákshöfn, auk hefðbundinna tónleika í Selfossbíói og á Flúðum, þarna eru hefðir komnar á sem síðan hafa staðið allt til þessa dags. Þetta vor var svo gerð önnur upptaka fyrir útvarp.

Á stjórnarfundi í Bíóskálanum í sept ’69 er talað um fjármál og söngstjórn, hvort Pálmar myndi fáanlegur til að stjórna þennan vetur  og hvaða ráðum skuli beita til að eignast meiri peninga, ætti til dæmis að reyna að safna styrktarfélögum svo sem gert var ráð fyrir í áttundu grein laga félagsins. Samstarf við aðra kóra kom til tals eða jafnvel stofnun blandaðs kórs? Framtíðarhorfur heldur daprar.

Þetta ár er ítrekuð umsókn um styrk frá S.I.K. jafn árangurslaus og áður, “en hreppurinn stendur við sitt”.

Á aðalfundi 1969 hafa eignir rýrnað all verulega, nú geymir 429 aðeins 4.809,05 og í lok þess fundar er haft orð á því hvort ekki mætti lyfta söngskránni á “léttara plan”?

Veturinn þann var þó starf kórsins eins og áður, Pálmar stjórnaði og ekki bar á flótta frá félaginu þó fjárvana væri. Jóhanna Guðmundsdóttir hafði nú gengið til liðs við Heimi sem undirleikari og tók síðan alveg við því starfi. Um vorið 1970 var farið í fyrstu ferð kórsins út af suðvesturhorninu, söng og skemmtiferð til Blönduóss og var dansleikur haldinn eftir konsert. Sú ferð tókst með ágætum og er ógleymanleg þeim sem þangað fóru,  þetta varð upphafið að árvissum vorferðum kórsins.

 

Byrjunarörðugleikar að baki

Á aðalfundi haustið 1970 tók Gunnar Guðmundsson frá Egilsstöum við formennsku af Hjalta Þórðarsyni. Á þeim fundi er spurt “hvort líf muni leynast með Sambandi íslenskra karlakóra”? Og svarað er, “að starf þess muni hafa legið niðri árum saman, en von sé um bata”. Raddformenn eru þá einnig hvattir til að leita söngmanna hver fyrir sína rödd.

Það sama haust var Jónas Ingimundarson ráðinn söngstjóri, það  jók mjög á bjartsýni  og glæddi áhuga kórmanna að fá til liðs við sig ungan og áhugasaman tónlistarmann með miklar hugmyndir. Jónas er sonur Ingimundar Guðjónssonar, þess sem áður stjórnaði Karlakórnum Söngbræðrum.

Það voru haldnir tónleikar um jólin og eftir áramót hófst samstarf við nýstofnaðan Kvennakór Selfoss sem Jónas stjórnaði einnig.

Þennan vetur var æft í húsnæði Tónlistarfélagsins á Tryggvagötu 14, Selfosskirkju, Barnaskólanum og í Selfossbíói.

Regína Guðmundsdóttir aðstoðaði við raddþjálfun og Halldór Haraldsson sá um undirleik á vortónleikum sem kórarnir héldu sameiginlega víða um Suðurland og Reykjanes.

Um vorið fóru karlakórsmenn og konur þeirra í skemmtiferð að Kirkjubæjarklaustri og Núpsstað. Ekki varð þá lengra komist á þeirri leið.

Þetta ár 1971 fengu sameinaðir kórar aukinn styrk frá Selfosshreppi  vegna launakostnaðar söngstjóra og var nú upphæðin orðin 150.000 kr.

Næsta vetur var æft í Selfossbíói og Barnaskólanum og þá ýmist með eða án Kvennakórsins. Tónleikar um jól voru sameiginlegir en Karlakórinn hélt svo nokkra tónleika um vorið án kvennanna. Raddþjálfari var þá Ruth L. Magnússon

Átjánda janúar 1972 var Kvennaklúbbur Karlakórsins stofnaður og kættust þá karlar. Konur og fjáröflun hafa alltaf farið vel saman og eitt aðal markmið þessa félags var að safna peningum og styðja við bakið á karlakórnum.

Árvaka Selfoss var haldin í fyrsta sinn í mars þetta vor og söng kórinn nokkrum sinnum í þeirri dagskrá. Söngur á Árvöku varð svo fastur liður  næstur  ár.  Þá sendi kórinn fulltrúa á aðalfund Sambands íslenskra karlakóra sem vaknað hefur af dvala.

Vorið 1972 var farin skemmtiferð á Snæfellsnes og veturinn þar á eftir var starfið með líku móti og áður, með Kvennakórnum undir stjórn Jónasar og undirleik Ágústu Hauksdóttur.

 

Framtíðaráform

Í maí þetta vor var haldinn stjórnarfundur í bifreiðinni X 2209. Á þeim fundi voru auk Gunnars formanns Gunnar Sigurjónsson, Hermann Ágúst, Páll Auðunsson og Skúli Guðnason. Þar sagði  formaður frá væntanlegri hótel og félagsheimilis byggingu á Selfossi og að leitað hefði verið eftir framlagi frá kórnum. Fundarmenn voru einróma samþykkir þátttöku kórsins í þessu þarfa framtaki. Ekki þótti þó fært að taka bindandi ákvörðun um fjárframlög á þessum fundi þar sem ekki væri nógu skýrt hvernig staðið yrði að hlutafjársöfnun og var málinu því frestað.

Seinna var þetta mál kynnt á almennum félagsfundi. Sömuleiðis þar þótti varasamt  að flana að fjárhagslegum skuldbindingum. Félagar voru sammála um að taka þátt í byggingu hússins en vildu fá gleggri mynd af fyrirkomulagi fjármögnunar og upplýsingar um hvort og hvernig væntanlegt félagsheimili myndi nýtast kórnum.

Þær upplýsingar sem þarna var óskað eftir virðast aldrei hafa komið fram  því ekkert varð úr að kórinn eignaðist hlut í “Félagsheimilinu”.

Nú voru myndakvöld Karlakórsins komin til sögunnar og var þetta haust haldið í samkomusal KÁ á efsta lofti kaupfélagshússins þar sem nú er fundarsalur Sveitarfélagsins Árborgar.

Vortónleikar 1973 voru haldnir sameiginlega með Kvennakórnum og nú í kabarettformi, það var endirinn á því samstarfi. Í maí var haldinn félagsfundur í Karlakórnum þar sem samþykkt var að kórinn skyldi starfa sjálfstætt í framtíðinni. Þar með var einnig lokið starfi Jónasar Ingimundarsonar hjá Karlakór Selfoss.

Þetta vor fór kórinn í ferðalag í Borgarfjörð í júníbyrjun.

 

Nýr stjórnandi

Haustið 1973 tók Ásgeir Sigurðsson við stjórn kórsins og undirleikarar þann vetur voru Jóhanna Guðmundsdóttir og Björgvin Þ. Valdimarsson. Þau  tóku ekki greiðslu fyrir sína vinnu en mæltust til að jafnvirði yrði lagt í húsbyggingarsjóð kórsins.

Nú var félagið komið á nokkuð lygnan sjó fjárhagslega og starfið þennan vetur var hefðbundið og gekk vel.

Embættum innan félagsins hafði nú fjölgað, “ölmaður” var skipaður á aðalfundi, sá  skyldi sjá um ölsölu til félaga á æfingum og svo í ferðalögum. Einnig hafði verið tekin upp mætingaskráning og var ákveðinn maður skipaður í það starf, hann var “kladdahaldari”.

Þeir félagar sem best mættu á æfingar voru svo verðlaunaðir í vorferðum kórsins, í sérstakri athöfn á sunnudegi þar sem bornar voru fram viðeigandi veitingar í boði ölsjóðs.

Jólatónleikar voru haldnir í Selfosskirkju með öðrum kórum og Lúðrasveit, myndakvöld á hausti og árshátíð í mars voru fastir liðir og vortónleikar víða um Suðurland, oftast var sungið á Selfossi á sumardaginn fyrsta.

Þennan vetur æfði kórinn auk sinnar eigin dagskrár lög til flutnings í Þjóðhátíðarkór Árnesinga sem stofnaður var af  Sigurði Ágústsyni í Birtingaholti, en í þeim kór voru velflestir starfandi kórar í sýslunni. Þjóðhátíðarárið 1974 söng þessi stóri kór svo við ýmis tækifæri,

á tónleikum á Flúðum, við hátíðahöld á Selfossi og  svo í Laugardalshöllinni. Einnig var gerð upptaka fyrir útvarp.

Í apríl var fyrst haldinn fundur þar sem rætt var um möguleika á húsbyggingu, “jafnvel með öðrum, til dæmis lúðrasveit”. Ákveðið var að skoða málið vel.

Vorið 1974 hafði opnast leið austur með suðurströndinni og þá fór kórinn í vorferð til Hafnar í Hornafirði, það var söngferð, en það hafði þá ekki verið reynt síðan á Blönduósi forðum.

Fyrst var sungið í Vík og gist þar en næsta dag haldið til Hafnar og sungið þar á laugardagskvöldi, þetta var einstaklega vel heppnuð og skemmtileg  ferð, fæstir höfðu áður komið á þessar slóðir.

Eftir árvissa vortónleika á Flúðum hélt svo kvennaklúbburinn sitt fyrsta ball þar og tókst  svo vel að síðan hefur það verið fastur þáttur í félagslífinu.

 

Kórinn eignast hljóðfæri

Á aðalfundi 26. september 1974 hætti Gunnar Guðmundsson formennsku og var Sigurdór Karlsson kosinn í hans stað. Á þessum fundi var sagt frá því að sótt hefði verið um lóð fyrir kórhús og sú umsókn verið samþykkt í hreppsnefnd, “Staðsetning er þó ekki enn ljós þar sem byggingarnefnd hefur ekki komið saman síðan fyrir kosningar”.

Í byggingarsjóði voru þá til 17.830 kr.

Þennan vetur var æft í húsnæði Tónlistarskólans og undirleikari var Björgvin Þ. Valdimarsson. Nú var það ekki lengur svo að leita þyrfti á hverju hausti með logandi ljósi að einhverjum til að spila undir, Ásgeir var kunnugur starfinu í Tónlistarskólanum og vissi hvar líklegast væri að leita undirleikara.

Árshátíð var haldin í Selfossbíói í  mars 1975 og hélt kórinn þar upp á 10 ára afmæli sitt. Kvennaklúbburinn gaf við það tækifæri vandað píanó sem bar hið virðulega nafn  “Petrof” og einnig lagið “Vorhljóma” eftir Jónatan Ólafsson.

Konurnar voru farnar að láta til sín taka.

Árvaka Selfoss var haldin þetta ár og tók kórinn þátt í þeirri hátíð með tónleikum, auk þess sem sungið var vítt um sveitir eins og áður.

Þetta vor var farin söng og skemmtiferð í Borgarfjörð.

 

Á að byggja hús?

Veturinn 1975-6 var mikið að gera, á aðalfundi um haustið var kosin byggingarnefnd og einnig ákveðið að kanna kostnað við útgáfu hljómplötu. Þar er talað um að athuga með flutning á syrpu með léttum lögum í samstarfi við Lúðrasveitina.

Hallgrímur Helgason hafði þá fengist til að annast raddþjálfun.

Myndakvöldin eru árviss, nú í Tryggvaskála, árshátíð í bíóinu í mars, sungið á Árvöku og á kóramóti Kötlu sambands sunnlenskra karlakóra sem haldið var á Hótel Borg í apríl.

Það var fyrsta kóramót Kötlu, en Karlakór Selfoss var einn af stofnkórum þess sambands árið 1975.

Aðrir vortónleikar voru með hefðbundnum hætti og vorferð farin til Víkur í maílok. Stjórnandi og undirleikari voru Ásgeir og Björgvin eins og áður.

Á aðalfundi  1976 kom fram að kórnum yrði líklega úthlutað lóð sunnan Fossheiðar og austan Tryggvagötu. Í byggingarsjóði voru þá 21.952 kr.

Þar var einnig samþykkt að kórinn myndi ekki taka frekari þátt í samstarfi um Árvöku Selfoss.

Næsti vetur varð líflegur með samstarfi við Lúðrasveitina, Ásgeir var einnig stjórnandi hennar svo hægt var um vik með samstarf. Í mars gáfu kvennaklúbbskonur kórnum söngföt, gráa jakka með brúnum buxum og skyrtum, þverslaufur í stíl höfðu þær saumað sjálfar. Þær höfðu ýmis ráð til fjáröflunar og gekk vel.

Það var sungið í Austurbæjarbíói með Karlakórnum Stefni og á afmælishátíð Sigurðar Ágústssonar á Flúðum, auk fjölmargra annarra konserta og tilfallandi söngskemmtana.

Í maí var haldinn fundur um byggingamál, hugmyndir voru um að hverfa frá húsbyggingu og viðræður í gangi um kaup á húsi Vegagerðarinnar að Úthaga 1. Landsbankinn og Brunabót höfðu lofað sinni milljóninni hvort að láni. Ekkert var þó ákveðið og almennt virtist meiri áhugi á byggingu, til dæmis stálgrindahúss ef til vill í félagi við aðra.  Þá var rætt um að félagar kostuðu sjálfir væntanlega vorferð þar sem kórinn þyrfti nú á öllu sínu að halda vegna húsnæðismála, fram til þessa höfðu kórfélagar sloppið næsta létt frá þeim ferðum.

Vorferðin var svo farin að Sigöldu og gist á Brúarlundi í Landssveit, næsta dag var svo ekið í Fljótshlíðina og svo heim þaðan, líklega kom ekki til þess að félagar borguðu ferðina sjálfir hún var bara í styttra og ódýrara lagi þetta ár.

Haustið 1977 hætti Sigurdór formennsku og Steinþór Kristjánsson var kosinn í hans stað. Ásgeir kynnti á þessum fundi hugmynd um útgáfu hljómplötu með öllum kórum og hljómsveitum á Selfossi, engin ákvörðun var þó tekin um það.

Enn var ekkert ljóst í húsnæðismálum, verið gat að Sigfús Kristinsson vildi selja hluta af húsi við Austurveg, þar var áður var fyrirtækið “Plast og stál” en nú er þar Bónus verslun. Það var ýmislegt skoðað á þessum tíma.

 

Karlakórinn á “vinyl”

Í janúar var svo farið til upptöku hjá Hljóðrita í Hafnarfirði vegna  Selfossplötunnar  sem þá var afráðið að gefa út.

Þennan vetur átti kórinn heilmikið samstarf við Karlakór Keflavíkur og Karlakórinn Svani á Akranesi, haldnir voru sameiginlegir tónleikar  og höfðu allir gott og gaman af. Við stofnun Kötlu varð mikil aukning á samskiptum kóra á sambandssvæðinu, má segja að flest ár séu einhverjar gagnkvæmar heimsóknir og svo sameiginlegt kóramót á fimm ára fresti.

Vorferð 1978 var farin í Þjórsárdal og gist í Ásaskóla, enn er verið að spara peninga og ferðast í hófi. Karlakórinn Jöklar frá Hornafirði létu ekki vegalengdir aftra sér og komu í  heimsókn í júní og héldu tónleika með Karlakór Selfoss í Aratungu.

Kórinn söng einnig þetta vor á Listahátíð í Reykjavík og í  júlí  á landsmóti Ungmennafélaganna sem þá var haldið á Selfossi.

Í nóvember 1978 var haldinn samsöngur í íþróttahúsinu á Selfossi með Svönum á Akranesi og Karlakór Keflavíkur. Á eftir var svo matarveisla og ball í bíóinu, það var heilmikið mál að standa fyrir svo stórri samkomu og naut kórinn þar aðstoðar Kvennaklúbbsins sem sá um matinn en hafði þó kokk til aðstoðar.  Aðsókn á tónleikana var ágæt og þótti þetta allt takast vel.

Öðru hvoru komu upp umræður um söfnun styrktarfélaga en lítið miðaði í þeim efnum.

Þetta haust hófst samstarf kóra á Selfossi í kirkjunni  með jólatónleikum til styrktar byggingu safnaðarheimilis. Það hafði verið sungið  um jól áður en nú var aðgangseyrir ætlaður ákveðnu verkefni. Fyrstu árin voru þessir tónleikar haldnir á milli jóla og nýárs en færðust svo fram á aðventuna, með því móti varð meira úr jólafríi söngfólksins.

Þessi ár voru ákaflega góð hjá kórnum, allt starf í föstum skorðum og næg viðfangsefni.

 

Í ferðahug

Í maílok 1979 kom karlakór frá Wales í heimsókn og hélt samsöng í Selfossbíói. Síðan gistu þeir á heimilum karlakórsmanna, nú var kórinn kominn í samband við hinn stóra heim.

Síðar sama ár kom boð frá þessum kór um að Karlakór Selfoss kæmi í heimsókn til þeirra og tæki um leið þátt í alþjóðlegu kóramóti sem árlega er haldið í Llangollen í Wales og nefnist “International eisteddfod”. Í annarri grein laga félagsins stendur “að kórinn skuli fara til annarra landa til þess að kynna íslenzkan karlakórssöng”, djörf ákvörðun á byrjunarreit, það var samþykkt á aðalfundi að stefna til Wales.

Á þessum aðalfundi 1979 kemur fram að eitthvað hefur safnast af styrktarfélögum. Þeim var ætlað að greiða ákveðið árgjald en fengu á móti miða á vortónleika kórsins. Þarna heyrist líka að kórfélagar víla fyrir sér að ganga á milli húsa og innheimta árgjöld, fannst þá það snjallræði að bjóða kvennaklúbbskonum að annast það gegn hluta ágóðans. Þeir töldu víst að fátt væri svo torsótt að konur gerðu það ekki fyrir peninga.

Aðalfundir á þessum árum voru haldnir í “Sal Tónlistarfélagsins” sem var þar sem tónlistarskólinn starfaði hverju sinni, lengi á Tryggvagötu 14 en svo í húsi Tónlistarskólans við Skólavelli.

Tuttugasta og annan mars 1980  var mót Kötlu sambands sunnlenskra karlakóra haldið á Selfossi. Það var haldið í íþróttahúsinu og um kvöldið var svo matarveisla í anddyri Gagnfræðaskólans, ekki var þá annað hús hér á staðnum sem gæti rúmað þennan fjölda.

Þetta tókst vel þó ýmislegt þyrfti á kórfélaga og konur að leggja við undirbúninginn. Kötlumót eru haldin á fimm ára fresti hjá aðildarkórunum til skiptis og “verður vonandi hentugra húsnæði til þegar næst kemur að okkur”. Er þá horft til fyrirhugaðrar félagsheimilisbyggingar.

Í maí 1980 hélt kórinn vortónleika í íþróttahúsinu. Einsöngvarar voru þá Elín Sigurvinsdóttir og Már Magnússon og undirleikari Ólafur Vignir Albertsson.

Þetta vor var ekki minnst á húsbyggingu og farin vorferð til Vestmannaeyja sem ekki var ódýr.

Steinþór Kristjánsson hætti í formannsembættinu á aðalfundi 1980 og Páll Auðunsson tók þar við, á þessum fundi sá kvennaklúbburinn í fyrsta sinn um kaffiveitingar og hefur svo gert það æ síðan á aðalfundi.

Ásgeir hafði verið ráðinn til starfa þennan vetur og var því að byrja sinn áttunda vetur með kórnum og hafði enginn stjórnandi verið svo lengi áður. Þennan vetur söng kórinn inn á plötu í samstarfi við aðra karlakóra í  Kötlu, svokallaða “Kötluplötu” sem kom  út árið 1984.

Suncana Slamning var undirleikari og hafði tekið við af Björgvin tveim árum fyrr.

Nú er ferðin til Wales komin alvarlega til umræðu og það er skipuð nefnd til undirbúnings. Næsti vetur fór svo allur í æfingar og undirbúning fyrir þessa ferð sem farin var sumarið 1981. Þennan vetur urðu æfingar óvenju margar og konur jafnt sem karlar unnu mikið fjáröflunarstarf fyrir ferðasjóð. Nú lágu allar húsbygginga hugmyndir niðri um skeið og ekki var farin vorferð þetta ár.

 

Ferðin til Wales

Það var flogið til London 7. júlí og gist þar eina nótt en næsta dag var farið með tveimur langferðabílum norður til Wales. Mótsstjórnin hafði komið kórfélögum og konum þeirra fyrir á einkaheimilum og var vel um alla séð. Nokkuð var misjafnt hversu vel ferðalangar voru að sér í erlendum málum en það varð lítið til vanda. Fólkið þarna tekur árlega á móti gestum frá öllum heimshornum í sambandi við þessa tónlistarhátíð svo það var þrautþjálfað í að tjá sig á táknmáli.

Keppnin fór svo fram 11. júlí, en í henni sungu karlakórarnir þrjú lög, þar af tvö skyldulög sem send höfðu verið að utan haustið áður.

Fyrir Karlakór Selfoss var mikið ævintýri að taka þátt í þessari keppni sem fór fram í geysistóru tjaldi. Þó ekki kæmist kórinn á verðlaunapall var hann reynslunni ríkari og fékk allgóða dóma.

Það var svo ferðast heilmikið um Wales og kórinn sem áður hafði komið hingað bauð heim til sín í lítinn námubæ og móttökurnar þar voru frábærar. Við ferðarlok var svo dvalið í London nokkra daga og þá meðal annars farið í leikhús að sjá Evitu.

Ferðin öll tókst einstaklega vel og enn í dag er rifjað upp ýmislegt sem þar dreif á dagana.

Ásgeir var stjórnandi kórsins eins og mörg undanfarin ár en þar sem Suncana Slamning undirleikari sá sér ekki fært að fara í þessa ferð var Geirþrúður Bogadóttir fengin til undirleiks. Fararstjóri var Magnús Karel Hannesson á Eyrarbakka og er ekki ofsagt að hann hafi staðið sig einstaklega vel í því hlutverki. Myndakvöldið þetta haust var með veglegasta móti, það varð að hafa þau tvö.

 

Aftur í daglegu amstri

Á aðalfundi 1981 kemur fram að þær tekjur sem best skili sér séu af sölu auglýsinga í söngskrá og svo af starfi ölmanns, ölsjóður er mikil blessun fyrir félagið. Tekjur af tónleikum eru ekki umtalsverðar, enda heilmikill kostnaður þar á móti. Þetta haust eru eignir kórsins þessar:  Fjörutíu og eitt stk. söngföt, pallar, píanó og flekar.

Veturinn 1981-2 var tekið upp samstarf við Karlakórinn Stefni í Mosfellssveit með gagnkvæmum heimsóknum, samstarf við aðra kóra verður nú sífellt veigameiri þáttur í starfsemi kórsins og voru hvern vetur einhverjar heimsóknir og móttökur vegna þessa og líkaði öllum vel.

Nú hafði verið ráðinn nýr undirleikari af heimaslóðum, Þórlaug Bjarnadóttir og átti hún eftir að starfa vel og lengi með kórnum.

Vorið 1982 var farin skemmtiferð austur að Skógum og í Bása í Þórsmörk, fjárhagurinn átti eftir að jafna sig eftir utanlandsferðina svo ekki voru ráð á langri ferð.

Meira að segja Kvennaklúbburinn var algerlega auralaus, í fundargerð klúbbsins haustið ’81 segir “ að í bankabókinni séu nú til 9 krónur.”.

En svoleiðis sár eru fljót að gróa og á aðalfundi Karlakórsins 3. okt. 1982 var samþykkt að fara að huga að utanlandsferð á 20 ára afmæli kórsins, til dæmis til Færeyja eða Noregs. Kórinn hafði reyndar fengið heimboð frá kór í Noregi árið áður en farið var til Wales sem á þeim tíma varð að hafna, en nú voru komnir allt aðrir tímar.

Á þessum fundi var líka rætt um plötuútgáfu og ráðningu raddþjálfara, Sigurveig Hjaltested var tilbúin til að taka það starf að sér.

Enn er innheimta styrktarfélagagjalda að þvælast fyrir mönnum. Voru konurnar ekki eins fúsar til fjáröflunar og þeir höfðu haldið?

Ekkert er lengur minnst á húsnæðismál þó ætla mætti að á því væri full þörf, að komast einu sinni til útlanda virðist hafa farið gjörsamlega með alla heilbrigða hugsun hjá kórfélögunum. Þeir áttu nú orðið ýmislegt sem þurfti að komast í hús og var á þessum tíma dreift um allan bæ heima hjá kórmönnum en þeir vildu bara komast aftur úr landi!

Veturinn 1982-3 var samstarf við Þresti í Hafnarfirði með gagnkvæmum heimsóknum. Hefðbundnar skemmtanir og sungið víða auk venjubundinna vortónleika á afmælishátíðum, fundum, þingum og framboðsfundum og svo eins og alltaf lokatónleikar og ball á Flúðum.

Þetta vor var það nýmæli tekið upp að hafa sérstakan kynni á tónleikum,  Magnús Karel Hannesson  tók þetta að sér og fórst það ekki síður en fararstjórnin árið áður. Einnig var þá auk venjubundins undirleiks léttsveit sem spilaði með kórnum á hluta tónleikanna, hvort tveggja þetta gerði kórinn með “poppaðasta” móti vorið 1983.

Þátttaka í 17. júni hátíðarhöldum á Selfossi er líka fastur liður og hafði nú reyndar teygt sig niður á Eyrarbakka þar sem sungið var í kirkjunni á þjóðhátíðardegi.

Vorferðin að þessu sinni var farin á Höfn í Hornafirði með viðkomu á Kirkjubæjarklaustri, var sungið á báðum stöðunum og auk þess dansað á Höfn. Þessi ferð var vel heppnuð eins og ferðir kórsins eru reyndar alltaf, meira að segja góðir veðurguðir hafa verið með í allflestum ferðum.

 

Styrktarfélagar lagðir á hilluna

Þetta vor hætti Ásgeir sem stjórnandi kórsins eftir 10 ára starf. Um haustið tók Sigfús Ólafsson við stjórninni en Þórlaug var áfram við píanóið.

Á aðalfundi 1983 hætti Páll Auðunsson formennsku og við tók Hermann Ágúst. Á þessum fundi var rætt um að koma upp kvartett eða dúett sem gæti sungið fyrir borgun við ýmis tækifæri. Einnig var talað um merki félagsins og hvort ætti að láta útbúa fána, ákveðið var að fela Kvennaklúbbnum að sjá um þá framkvæmd. Þarna var einnig borin upp sú tillaga að hætta að eltast við styrktarfélaga og var því almennt fagnað. Þess í stað var ákveðið að dreifa árlegri söngskrá í hvert hús á Selfossi. Myndi það vekja athygli á starfi kórsins og að líkindum auka auglýsingagildi  söngskrárinnar, auglýsingatekjur vega þungt.

Þennan vetur var svo stofnaður kvartett innan kórsins og svo líka dúett og öfluðu þeir kórnum nokkurra aukatekna með söng við ýmis tækifæri.

Þá var einnig haldin fjölskylduhátíð í íþróttahúsinu, þar sem kórmenn og fjölskyldur þeirra skemmtu áhorfendum með ýmsu móti. Meðal annars  glæsilegri tískusýningu þar sem sýnd voru föt frá verslunum á Selfossi.  Um þessar mundir snerist allt um fjáröflun – til utanlandsferða, þó að sjálfsögðu væri æft og sungið eins og ætíð fyrr. Þetta var bara viðbót.

 

Vinir okkar í Færeyjum

Á þessum tíma var  aftur rætt um utanlandsferð. Karlakór í Noregi hafði sýnt áhuga á samstarfi og svo hafði  Þýskaland einnig komið til tals. Á aðalfundi 1984 var sagt frá heimboði frá Fuglafirði í Færeyjum.

Fuglafjörður er vinabær Selfoss og bæjarstjórnin þar bauð nú Karlakór Selfoss í heimsókn. Það lá við að væri ókurteisi að hafna svo góðu boði!

Árshátíð á afmælisári 1985 var haldin í Inghól 4. mars, nú mátti heita að Selfossbíó hefði lokið sínu hlutverki og skilað því með sóma.

Inghóll og Hótel Selfoss voru að taka við.

Í marslok þetta ár var Kötlumót haldið í Keflavík og þangað var að sjálfsögðu farið, það er alltaf mætt á þær meiriháttar samkomur sem bjóðast. Þarna var haldin 10 ára afmælishátíð Kötlu og voru sjö karlakórar mættir til leiks. Á þessum tónleikum frumflutti Karlakór Selfoss lagið “ Sumarkveðja “ eftir Sigurð Ágústsson en það er tileinkað Kötlu. Um kvöldið var svo borðhald í Stapa og dansað fram eftir nóttu.

Á sumardaginn fyrsta hélt Karlakór Selfoss  20 ára afmælistónleika í Íþróttahúsinu á Selfossi. Þar fékk kórinn til liðs við sig Önnu Júlíönu Sveinsdóttur, söng hún nokkur lög við undirleik Jónasar Ingimundarsonar og svo söng hún með kórnum lagið “Ég bið að heilsa” eftir Inga T. Lárusson. Tókust þessir tónleikar mjög vel og voru vel sóttir.

Um  kvöldið var svo hátíðarkvöldverður í Inghól, þangað var öllum fyrrverandi söngstjórum kórsins boðið ásamt mökum og þótti þessi afmælisveisla takast ljómandi vel. Við þetta tækifæri færði Kvennaklúbburinn kórnum afmælisgjöf, stóran fána á stöng  með sama merki og var á litlu borðfánunum sem kórinn hafði látið útbúa.

Merki kórsins sem prýðir fánana hafði ein af kvennaklúbbskonum, Sigríður Svava Gestsdóttir, hannað og gaf hún kórnum það. Einnig voru svo útbúin barmmerki til að festa á jakkana gráu.

Auk alls þessa voru að sjálfsögðu haldnir hefðbundnir vortónleikar, Flúðaball og þjóðhátíðarsöngur samkvæmt venju.

En 19. júní lagði svo kórinn upp í Færeyjaferð, í boði frænda okkar og vina í Fuglafirði.

Það var farið með rútu frá Sérleyfisbílum Selfoss austur á Seyðisfjörð þar sem ekið var um borð í Norrönu og síðan siglt með henni til Þórshafnar í Færeyjum. Stefán Ómar Jónsson fyrrum bæjarstjóri á Selfossi var fararstjóri í þessari ferð. Hann hafði þegið heimboð þarna fyrr og þekkti til í Fuglafirði. Það var ekið frá Þórshöfn til Fuglafjarðar þar sem við fengum fría gistingu í skólanum, okkur var alveg einstaklega vel tekið af heimamönnum, það var sungið fyrir fullu húsi í vinabænum og bæjarstjórn þar bauð til veislu.  Næsta dag var farið til Þórshafnar og sungið þar í Norðurlanda húsinu. Það  var einnig farið til Klakksvíkur  þar sem kórinn var boðinn á bæjarstjórnarfund og svo haldnir tónleikar í skólanum. Á öllum þessum stöðum var aðsókn mjög góð og viðtökur frábærar. Við ferðarlok var svo gist á Hótel Borg í Þórshöfn og bærinn skoðaður vel áður en aftur var haldið heim. Þessi ferð var vel heppnuð og móttökur heimamanna aldeilis ótrúlegar.  Heim var svo komið akandi norðurleiðina 28. júni. Hópurinn var í þessari ferð á rútu frá S.B.S og henni stýrði einkabílstjóri kórsins á þessum árum, Eyvindur Þórarinsson. Hann bliknaði ekki þó víða í Færeyjum væru þröngir vegir og krappar beygjur og jafnvel hengiflugið eitt fyrir framan bílinn.

 

Hvar á að geyma allt dótið?

Það má með sanni segja að þetta tuttugasta afmælisár hafi verið einstaklega viðburðaríkt og kannski ekki undur að eitthvað yrði undan að láta. Um haustið hætti Hermann Ágúst formennsku og Bjarni Þórhallsson tók við. Þau sögðu einnig störfum sínum lausum undirleikarinn Þórlaug og stjórnandinn Sigfús.

Ásgeir Sigurðsson tók þá  að sér söngstjórn, til eins árs að minnsta kosti.

Nú var mál að snúa sér að veraldlegum hlutum. Kórinn hafði í öllum þessum hátíðahöldum, afmæli og heimsóknum eignast töluverðar jarðneskar eignir. Málverk og aðra listmuni sem áttu engan samastað. Auk þeirra hluta sem beinlínis tilheyrðu kórstarfinu, píanó, palla, nótur og fleka. Húsnæði var orðið verulega aðkallandi, það var nú enn á ný rætt á aðalfundi og endaði loks með framkvæmdum.

Þetta haust var tekið á leigu herbergi í kjallara að Fossheiði 58, þar var tekið til hendi og kórinn bjó sér þar bærilega aðstöðu fyrir geymslu eigna og minni fundi. Þar hélt Kvennaklúbburinn einnig sína fundi.

Þá var sagt að kórinn hefði nú loksins eignast “Athvarf” og gekk þetta húsnæði gjarnan undir því nafni.

Kórstarfið var með hefðbundnum hætti, Robert Darling hafði fengist til undirleiks, það voru aðventutónleikar og svo venjubundnir vortónleikar auk ýmissa tilfallandi skemmtana. Þetta vor hélt kórinn árshátíð sína á Minni Borg í Grímsnesi. Fyrr um veturinn, í fyrstu viku febrúar hafði Selfossbíó verið rifið til að rýma til fyrir nýja Félagsheimilinu sem nú var nærri tilbúið. Með falli gamla bíóhússins má segja að lyki kafla í sögu Karlakórsins þar hafði kórinn átt athvarf á sínum fyrstu árum og síðan haldið þar flesta sína tónleika og skemmtanir.

 

Verkefni af ýmsu tagi

Kórinn hefur öll árin verið beðinn að syngja við ýmis tækifæri utan venjubundinnar dagskrár. Landsþing hestamannafélaga, þorrablót Sandvíkurhrepps, landsþing Rotary, afmælishátíðir ýmissa félaga og  fleira þvíumlíkt kom upp á hverju ári.

Tuttugasta og níunda maí 1986 var sungið við vígslu Félagsheimilisins Ársala sem nú var risið að hluta, án stuðnings Karlakórsins.

Fuglafjarðar gentukór kom í heimsókn í júní og dvaldi í viku að mestu í umsjá Karlakórsins. Farið var með þeim í ferðir um Suðurland og reynt eftir megni að gera þeim dvölina eftirminnilega. Söngstjóri þeirra var Fritz Johansen sem hafði haft veg og vanda af móttökum í Fuglafirði árið áður.

Aðalfundurinn árið 1986 er haldinn að Fossheiði 58, í fyrsta sinn í húsnæði sem kórinn hefur yfir að ráða. Hafi mæting verið góð á þennan fund er þó líklegt að þröngt hafi verið setið.

Í mars ’87 var sungið á Flúðum á 80 ára afmæli Sigurðar Ágústssonar,

Þar færði kórinn honum áletraðan silfurdisk sem virðingarvott og með þökk fyrir allar þær ómetanlegu perlur sem hann hefur lagt til sönglífs í landinu.

Á aðalfundi 1987 hætti Bjarni formennsku eftir tveggja ára starf og Helgi Helgason tók við. Einhver lægð er í kórstarfinu á þessum tíma og til dæmis ekki fært að taka þátt í aðventutónleikum þetta ár vegna fámennis í sumum röddum. Á Þorláksmessu söng þó kórinn í Kaupfélagi Árnesinga og fékk að launum ný hálsbindi við kórfötin.

Allt annað starf var með venjubundnum hætti og um vorið ’88 var farið norður í Skagafjörð og sungið á Sæluviku í boði Karlakórsins Heimis.

 

Í djúpum dal

Á aðalfundinum 1988 kemur fram að Ásgeir stjórnandi vilji nú hætta og illa lítur út með að fá stjórnanda. Þá er líka heldur fáliðað í kórnum, meðalaldur kórmanna í hærra lagi og einhverjir ætla að hætta. Það er ekki bjart framundan.

Jóhann Stefánsson tók að sér stjórn þetta haust vegna einstakra verkefna, en ekki var þó æft fyrir aðventutónleika. Eftir áramótin byrjaði  Jóhann sem stjórnandi fyrir alvöru og var svo ráðinn næsta vetur líka. Vorprógramið var æft með sama móti og áður og Þórlaug lék nú aftur undir. Einnig aðstoðaði Guðmundur Pálsson við raddþjálfun. En það má víst segja að þetta starfsár ‘88 – 9  hafi verið eitt daprasta ár í ævi kórsins. Vortónleikar voru þó haldnir, fyrir Félag eldri borgara í Inghól og Flúðaballið var á sínum stað. Æfingar um veturinn urðu innan við 30 og söngmenn aðeins 22. Engin vorferð var farin, henni var frestað til haustsins og þá farin skemmtiferð að Húsafelli.

Það var þó alltaf eitthvað við að fást og kórinn tók á móti dönskum karlakór í júní.

Haustið 1989 var leigusamningur í Fossheiði 58 útrunninn og ekki endurnýjaður svo eignir  kórsins voru aftur komnar á vergang og komið í geymslu, vonandi tímabundið. Það tókst að fá geymslu í Tónlistarskólanum og þar fékk kórinn líka að halda fámennari fundi. Varla hefur Tónlistarskólanum veitt af öllu sínu húsrými en þetta var  gert af velvilja húsráðenda. Karlakórinn var satt að segja “á götunni”.

 

Það birtir aftur

Þetta haust er þó enn talað um utanlandsferð, 25 ára afmæli kórsins nálgaðist og þótti upplagt að fagna því með ferð og þá helst rætt um  Norðurlöndin. Selfoss átti vinabæi þar líka og ferðanefnd er falið að kanna þetta með stjórninni.  Þessi umræða gæti líka hafa helgast af því að mörgum þótti það vænlegur kostur til að laða menn að kórnum. Utanlandsferðir eru gjarnan spennandi þáttur í félagsstarfi og nú var mikið í lagt til að fjölga kórmönnum. Um þessar mundir voru þeir  færri en nokkru sinni frá fyrstu árum, um það bil 25 öruggir þetta haust.

En það var farið á stúfana og ýtt við gömlum félögum í “fríi” og fleiri fundnir  svo á endanum varð ljóst að það yrði sönghæft. Aftur var sungið á aðventutónleikum og mætt var á Kötlumót í Mosfellsbæ í mars.

Vortónleikar voru haldnir  í íþróttahúsinu á sumardaginn fyrsta og voru það tuttugu og fimm ára afmælistónleikar. Um þá tónleika segir í fundargerð: “Til að auka fjölbreytni var fenginn ungur einsöngvari, Loftur Erlingsson, fyrrum félagi í kórnum. Var honum vel tekið enda greinilegt að þar fer söngvari sem mikils má vænta af í framtíðinni”.

Að þessum  tónleikum loknum bauð kvennaklúbburinn til veislu á Hótel Örk.

Eftir fall Selfossbíós breyttist árshátíðahald nokkuð. Nú var ekki sama aðstaða og áður til flutnings skemmtidagskrár og ef skemmtun skyldi haldin var ekki annarra kosta völ á Selfossi en í húsunum nýju Inghól og Hótel Selfoss, þess sem einu sinni stóð til að yrði Félagsheimili bæjarins.

Af þessu leiddi að allar skemmtanir urðu með öðru móti en áður. Nú var ekki lengur hægt að fara eftir kvöldmatinn með pokann sinn út á lífið heldur varð að byrja allar skemmtanir með matarveislu, sem áður hafði eingöngu verið gert við allra hátíðlegustu tækifæri. Með þessum hætti varð allt heldur dýrara og það var erfiðara að fá fólk til að mæta á skemmtanir.

Þá var tekið það ráð að halda sameiginlegar hátíðir með öðrum kórum á staðnum, þetta gekk í nokkur ár en varð aldrei eins vel sótt og gömlu árshátíðarnar höfðu verið.

Á þessum tíma höfðu kórmenn fataskipti og lögðu til hliðar jakkana gráu og hálsbindin frá Kaupfélaginu. Þeir klæddust nú “smoking” sem síðan hefur verið söngklæðnaður kórsins.

Vorið 1990 var farin söngferð um Norðurland, fyrst á Blönduós þar sem sungið var síðdegis á laugardegi og hefur líklega ekki í annan tíma verið fámennara á konsert. Fátt var um árið þegar bílstjórinn var handtekinn en færra var þó nú. Síðan var farið í Skagafjörðinn þar sem haldnir voru tónleikar í Miðgarði og á eftir  þegnar rausnarlegar veitingar í boði Karlakórsins Heimis, síðan var gist í skólanum í Varmahlíð. Næsta dag var svo áfram haldið til Akureyrar og Húsavíkur þar sem haldnir voru tónleikar.

Gist var á Akureyri og fjölmenntu ferðalangar í Sjallanum um kvöldið.

Karlakórinn Heimir kom svo suður í júní og gafst þá tækifæri til að endurgjalda móttkurnar í norðurferðinni og þáðu þeir matarboð í Tryggvaskála. Á þessum árum var Tryggvaskáli ómetanlegur við slík tækifæri.

 

Ólafur í Forsæti

Á aðalfundi haustið 1990 hefur Jóhann sagt upp sem stjórnandi, hvað er þá til ráða? Eftir nokkra leit og vangaveltur tókst að finna stjórnanda í Forsæti í Villingaholtshreppnum, þar bjó Ólafur Sigurjónsson og hafði fengist við kórstjórn, orgelleik og orgelsmíðar.

Hann reyndist fús til verksins og það var byrjað af krafti, þennan vetur var kórinn myndaður fyrir sjónvarp vegna þáttar um “fólkið í landinu” sem fjallaði um söngstjórann nýja og allt það sem hann hafði við að fást. Þessi vetur varð eins og aðrir annasamur og nýir félagar gengu til liðs við kórinn, leiðin lá nú upp úr lægðinni.

Á tónleikunum á Flúðum um vorið var Karlakórinn Glymur úr Rangárþingi gestakór, hann var þá nýlega stofnaður og varð síðar Karlakór Rangæinga.

Í september var sungið á 100 ára afmælishátíð Ölfusárbrúar.

 

Af lofti KÁ til Skotlands

Helgi Helgason hætti formennsku á aðalfundi 1991 og var þá Ingvar Guðmundsson kosinn í hans stað, þá er Þórlaug hætt og það vantar undirleikara.

Á fundinum var talað um húsnæðisvanda og afráðið að leita eftir afdrepi á efsta lofti KÁ-hússins sem þá var komið til ráðstöfunar bæjarins, nú er ekki lengur talað um hreppinn því hann hafði breytst í bæ.

Þarna fékk kórinn eitt rúmgott herbergi til afnota endurgjaldslaust, árlegur styrkur gekk nú til þessara þarfa og enn var tekið til hendinni við innréttingar, málningu og flutninga.

Þetta haust var Stefán Jónasson ráðinn undirleikari og var svo með kórnum næstu fjóra vetur. Kvartett var starfandi á þessum tíma og sá Stefán einnig um undirleik með honum. Sigurveig Hjaltested var kórnum hjálpleg með raddþjálfun og kennslu á þessum árum, hún kom þá úr Reykjavík og dvaldi hér gjarnan um helgar og kórmenn fóru til hennar í tíma einn af öðrum. Einnig söng hún einsöng með kórnum á aðventutónleikum.

Í maí 1992 er haldinn félagsfundur þar sem rætt er um væntanlega ferð til Skotlands sem þá er ákveðið að fara um sumarið, þá er einnig verið að hugleiða að kórinn segi sig frá sameiginlegu árshátíðahaldi.

Það var svo farið til Skotlands þetta sumar, þá var gist í Glasgow en einnig farið til Edinborgar og ferðast um sveitir Skotlands og sungið á nokkrum stöðum. Þar á glæsihóteli í fallegum kastala við rætur skosku Hálandanna var svo haldin vorhátíð kórsins sem annars er jafnan haldin í grænkandi lautu norður á Íslandi. Þar voru í fyrsta sinn útnefndir “merkismenn” kórsins, það eru þeir sem náð hafa ákveðnum árafjölda í starfi, þeir sem starfað höfðu í fimm ár fengu merki kórsins úr bronsi í barm, eftir tíu ár silfurmerki og  fimmtán ára félagar gullmerki.  Þeir sem höfðu starfað í tuttugu ár eða lengur fengu merki kórsins með kransi þrykkt í gull. Það merki er einnig heimilt að veita til sérstakrar viðurkenningar. Þessu hefur svo verið fram haldið og hafa nú nokkuð margir náð að eignast heiðursmerkið. Magnús Karel var fararstjóri í þessari ferð eins og áður í Wales ’81 og stóð sig eins og við var búist með mestu prýði.

 

Hreyfing í húsnæðismálum

Aðalfundur 1992 var haldinn í “Gjánni” sem var veitingastaður í kjallara KÁ-hússins, þá hafði kórinn geymsluhúsnæði í herbergi á efsta lofti en ekki var þar rúm fyrir stærri fundi.

Árið 1993 verður sú breyting að aðalfundir eru fluttir til vors en höfðu allt frá upphafi verið haldnir í vetrarbyrjun. Þetta mun hafa verið talið henta betur þar sem þá væri hægara að líta yfir starf síðasta vetrar og hafa svo betra ráðrúm til undirbúnings næsta starfsárs.

Í september 1993 tók kórinn á leigu hluta af hæð í iðnaðarhúsi að Gagnheiði númer 3 á Selfossi.

Þarna var alveg óinnréttað og var nú hafist handa við það sem nærri lá að mætti kalla húsbyggingu.

Þarna var á skömmum tíma útbúin eftir þörfum kórsins ágætasta félagsaðstaða, æfinga og fundahúsnæði og gott rými fyrir allar samkomur félagsins. Nú var loksins komið að því að allt væri á einum stað, ekki þurfti lengur að geyma málverk og listmuni í bunkum og kössum það var hengt upp á veggi eða komið öðruvísi fyrir svo vel færi. Kvennaklúbburinn tók þátt í þessum aðgerðum, lagði fé til innbúsins og tók þátt í leigukostnaði til helminga. Nú var ekki lengur vandi að taka á móti gestakórum í kaffi, þarna var allt til alls.

Þetta varð mikil lyftistöng fyrir kórinn, söngmönnum fjölgaði mjög og í lok þessa vetrar ’93-4 voru þeir orðnir 47 en höfðu verið 35 um haustið.

Frá upphafi hafði aldrei verið fleira í félaginu.

Þann 30. október var haldið myndakvöld og vígsluhátíð í Gagnheiðinni og í nóvember komu Þrestir úr Hafnarfirði í heimsókn í leiðinni austur á Hvolsvöll þar sem þeir ásamt Karlakór Selfoss héldu sönghátíð í boði Karlakórs Rangæinga.

Það samstarf stóð í nokkur ár, hvert haust komu þessir þrír kórar saman og héldu tónleika og skemmtanir og sáu um það til skiptis.

Kórinn hafði nú tekið upp þann sið að fara í æfingabúðir að Flúðum einn laugardag á vetri, oftast í febrúar. Var þá lagt af stað snemma morguns og svo æft þar fram undir kvöld. Það eru allir sammála um að svo löng og samfelld æfing, þó auðvitað sé með hvíldum, skili góðum árangri. Það hefur svo orðið siður að enda daginn með því að syngja nokkur lög í búðinni á Grund og þar nutu kórmenn síðan rausnarlegra veitinga  kaupmannshjónanna Sólveigar og Sigurgeirs svo lengi sem þeirra naut við. Sigurgeir lést árið 1997, hann var einlægur aðdáandi og dyggur stuðningsmaður Karlakórsins sem söng við útför hans í Skálholti.

Sólveig rak verslunina áfram í nokkur ár og hélt uppteknum hætti við þessa móttöku svo lengi sem hún réði húsum í búðinni á Grund.

Aðalfundurinn 1994 var haldinn í maí í glæsilegu eigin “félagsheimili” eftir nærri 30 ára hrakninga um bæinn, en það var líka heilmikið búið að ferðast.

Á þessum fundi hætti Ingvar formennsku og Júlíus Hólm tók við, starfið var allt með hefðbundnum hætti. Kvartett var hafður tiltækur og söng ýmist einn við minni tækifæri eða sem aukanúmer á tónleikum, það skilaði nokkrum aukatekjum.

Næsta vetur í mars átti kórinn 30 ára afmæli. Þá var haldin eigin árshátíð í Hótelinu í tilefni afmælisins og kvennaklúbbskonur gáfu hljómflutningstæki í félagsheimilið og peninga upp í kostnað vegna ferðar á Kötlumót sem þetta vor var haldið á Höfn í Hornafirði.

Þetta var þriggja daga ferð og það kostaði heilmikið að ferðast með stóran kór og konur með, ein rúta dugði ekki lengur.

 

Undir geislann

Það var sungið í Eden um miðjan dag á sumardaginn fyrsta, óformlegir tónleikar fyrir gesti og gangandi. Annars var tónleikahald þetta vor með hefðbundnum hætti. Vortónleikar á Selfossi eru á þessum árum yfirleitt haldnir í Fjölbrautarskóla Suðurlands þar sem aðstæður eru ágætar. Oftast voru svo aðrir tónleikar í kirkjunni og hefur hún svo á síðustu árum orðið aðal tónleikahús kórsins. Einhver góður maður hefur gjarnan verið fenginn til að kynna dagskrána á tónleikum vorsins og er Sigurgeir Hilmar Friðþjófsson sá sem þar hefur komið oftast við sögu, enda einstaklega orðheppinn og mælskur maður.

Í allmörg ár hefur það verið venja að fara í heimsókn  eitt kvöld að áliðnum vetri á Náttúrulækningahælið í Hveragerði og syngja fyrir  dvalargesti. Hefur þessu verið ákaflega vel tekið og húsráðendur boðið hollar og góðar veitingar að söngnum loknum.

Eins er það orðið árlegur viðburður að syngja fyrir h-eldri borgara á sæluviku þeirra á Hótel Örk. Þær eru orðnar nokkuð margar hefðirnar enda til lítils barist ef alltaf er setið í sama farinu.

Vorið 1996 er enn haldinn aðalfundur í Gagnheiði 3 þá hætti Ingvar formennsku og  Eyvindur Þórarinson tekur við en hann hafði þá starfað með kórnum í nokkur ár og var ekki lengur einkabílstjóri. Það vor var farið í söngferðalag í Skagafjörð og á Siglufjörð. Helena Káradóttir hafði nú tekið að sér undirleik og Berglind Einarsdóttir og Loftur Erlingsson sungu þá einsöng með kórnum. Það var langt komið að safna efni á geisladisk, þann fyrsta í sögu kórsins, Ólafur Þórarinsson í Glóru sá um upptökuna.  Áður hafði komið út Selfossplatan í samstarfi við annað tónlistarfólk á Selfossi og svo tók Karlakórinn þátt í útgáfu Kötluplötunnar, en þetta voru auðvitað í báðum tilfellum eðal-vinylplötur. Diskurinn, “Nú horfa stjörnur”, kom svo út haustið 1996. Þá í desember voru haldnir útgáfutónleikar í ófullgerðum bíósal Hótels Selfoss. Jafnframt því sem diskurinn var kynntur var þetta tækifæri notað til að minna á það ófremdarástand sem ríkir á Selfossi í húsnæðismálum til tónleikahalds og annarra listviðburða. Heldur var kuldalegt í þessum ófullgerða sal en það varð að hafa það, þetta var “Félagsheimili” bæjarins og skyldi þá notað sem slíkt.

 

Björgvinstónleikar

Í maí það vor hélt kórinn tónleika í Selfosskirkju í samstarfi við Skagfirsku söngsveitina, það voru svokallaðir “Björgvinstónleikar” þar sem eingöngu voru sungin lög Björgvins Þ. Valdimarssonar. Nú voru liðin mörg ár síðan hann spilaði á harmoniku við sólarupprás í móanum við Brúarlund í Landssveit. Björgvin er nú tónskáld og á þessum tíma stjórnandi Skagfirsku söngsveitarinnar, hann hefur samið mörg falleg lög  fyrir gamla félaga í Karlakór Selfoss, má þar nefna lagið “Stíg á bak” sem hann samdi og gaf kórnum í minningu látins félaga Harðar Ingvarssonar.

 

Vikartindur og Vestmannaeyjar

Í maí ’97 fór kórinn í dálítið óhefðbundið verkefni austur í Rangárvallasýslu. Þar á Háfsfjöru við Þykkvabæ stóð Vikartindur hálfur uppi á landi og allt í kring á við og dreif var allrahanda dót úr skipinu. Hér þurfti að taka til hendi.

Karlakórsmenn fóru ásamt konum sínum einn laugardag og söfnuðu saman rusli, tíndu í poka og færðu í ruslagáma. Af þessu var bæði gaman og gróði svo ekki sé talað um þá líkamsrækt sem fékkst af að arka um lausan sandinn daglangt. Seinna hafði kórinn reyndar meira uppúr strandi Vikartinds, þegar einn þeirra erlendu manna sem unnu hér við björgun hans tók þá ákvörðun að snúa ekki aftur heldur setjast að á Íslandi og ganga til liðs við Karlakór Selfoss.

Vorið 1998 er rætt um það á aðalfundi hvort kórinn eigi að ráðast í húsnæðiskaup, þá var enn verið í Gagnheiði 3 og það húsnæði var nú til sölu. Myndarlega merkt utandyra, merki kórsins á stóru skilti sem einn félaganna hafði gefið. Það var talað um hvort kórinn ætti að kaupa í Gagnheiðinni, eða þá jafnvel eitthvað annað húsnæði, það lá við að þetta væri orðið of lítið. Ákveðið var að skoða málið vel en nú var annað á döfinni, það var ferðin til Þýskalands.

Fyrst var þó farið í söngferð til Vestmannaeyja og var farið þangað með einkaflugvélum kórmanna og söngstjóra. Það er líklega enginn annar kór á Íslandi svo vel settur með fljúgandi söngfélaga.

 

Enn á erlendri grund

Svo var haldið til Þýskalands 19. ágúst.

Það vildi svo til að einn kórfélaga átti bróður sem hafði verið búsettur í Þýskalandi í mörg ár og hafði hann ásamt konu sinni og kórfélögum þar boðið okkur til sín í lítinn bæ nærri Bremen, það var flogið til Hamborgar og síðan ekið beinustu leið til Weyhe en svo hét þessi heimabær gestgjafanna. Þar var tekið á móti hópnum með viðhöfn og allan tímann sem dvalið var þarna var séð um gestina eins og best varð á kosið.

Það var gist í heimahúsum og var aðbúnaður allur til fyrirmyndar.

Það voru haldnir tónleikar og setið í veislum flest kvöld og svo sungið við messu í kirkjunni á sunnudagsmorgni. Skoðunarferðir um nágrennið, boð hjá bæjarstjórn, borgarferð til Bremen og “fósturforeldrar” buðu jafnvel vasapening! Þessum íslensku gestum var ekkert of gott.

Í ferðarlok var svo dvalið í Hamborg nokkra daga og stórborgin skoðuð,

Þar var hópurinn á eigin vegum en gekk þó allt að óskum.

 

Eigið húsnæði

Þann 22. janúar 1999 keyptu Karlakórinn og kvennaklúbburinn í sameiningu einn fjórða efri hæðar í Gagnheiði 40 á Selfossi og eignuðust þar sitt eigið húsnæði. Nú var ekki talið í sparisjóðsbók hversu mikið væri til í byggingarsjóði heldur fjárfest á nútímavísu með framtíðina að vopni og það hefur gengið ágætlega. Það er ekki alltaf til mikið af peningum en oftast nóg.

Þarna þurfti að rífa og breyta  og byggja upp á nýtt en það hefur aldrei verið vandamál fyrir félagana, í þeirra röðum eru margir hagleiksmenn sem ekki horfa í nokkrar helgar og fáein kvöld kórnum til handa.

Þarna var innréttað rúmgott og hentugt félagsheimili sem síðan hefur dugað vel til æfinga, funda og skemmtana, þar er innbú gott, borðbúnaður fyrir hundrað manns og öll aðstaða ágæt. Myndakvöldin eru alltaf haldin þar og aðrar skemmtanir innan félagsins og séu eigendurnir ekki sjálfir að nota húsið er það leigt út, eitthvað er þar um að vera flestar helgar.

Þennan vetur hélt kórinn sína eigin árshátíð í Hótel Selfoss og var þar með lokið samstarfi um árshátíðar. Þegar á reyndi kom í ljós að það var engin frágangssök að halda árshátíð fyrir einn kór, það var fullt hús.

 

Loksins komu Húnvetningar

Vorið 1999 var annasamt eins og oftar, það  var farið í heimsókn til Karlakórs Kjalarnesþings í Fólkvangi og svo í vorferð á Blönduós þar sem sungið var á Húnavöku, loksins komu Húnvetningar á tónleika. Allir tónleikar heimafyrir voru þá með hefðbundnum hætti og það var byrjað að safna efni á nýjan geisladisk.

Sumarið ’99 komu þýskir vinir frá Weyhe í heimsókn og gistu á heimilum sinna fyrrum fósturbarna. Það var ferðast með þeim víða um Suðurland og haldnir sameiginlegir tónleikar og veisla vegleg  haldin í Básnum í Ölfusinu. Það var vandi að endurgjalda alla þá rausn sem þeir höfðu sýnt karlakórsfólki sumarið áður.

Haustið 1999 var lokið upptöku á öðrum geisladiski kórsins ”Í ljúfum lækjarhvammi”. Hann kom út fyrir jólin og Kötlumót var haldið í Laugardalshöllinn seinni hluta vetrar.

Það vor hætti Ólafur Sigurjónsson stjórnun eftir 10 ára starf. Á aðalfundi vorið 2000 var einsöngvarinn Loftur Erlingsson ráðinn til að stjórna og er því nú að ljúka sínu fimmta ári.

Helena var enn undirleikari 2001 og hafði þá starfað með kórnum í sex ár. Vorið 1998 hafði verið bókað í fundargerð “að það yrði að reyna að eignast nýtt hljóðfæri, píanóið væri orðið 23 ára gamalt og hundlélegt, það væri ekki hægt að bjóða henni Helenu að spila á svona garm”.  Og nú varð loks af því, kórinn eignaðist flygil en píanó “garmurinn” var nú ekki ónýtari en svo að það tókst að selja hann fyrir 70.000 krónur. Þetta vor er Eyvindur enn formaður og tekur endurkjöri til eins árs en segir það verða sitt síðasta.

Karlakórinn varð þess heiðurs aðnjótandi 16. júní 2001 að syngja við brúðkaup söngstjóra síns í Skálholtskirkju. Hann kvæntist þar Helgu Kolbeinsdóttur sem einnig er dável syngjandi og hefur m.a. sungið einsöng með Karlakórnum.

 

Popp í Borgarfirði

Loftur og Helena héldu bæði áfram störfum haustið 2001 og  um jólin voru haldnir tónleikar í kirkjunni tileinkaðir Pálmari Þ. Eyjólfssyni. Þar komu saman nokkrir kórar af Suðurlandi og sungu lög eingöngu eftir hann, var þetta skemmtilegt framtak og Pálmari sýndur sá sómi sem hann á skilið. Tónleikar vorið 2002 voru með dálítið breyttu fyrirkomulagi, hefðbundinn karlakórssöngur fyrir hlé en seinni hlutinn var með léttara yfirbragði. Óhefðbundnum lögum og undirleik tónlistarmanna úr poppgeiranum, Helena var jafnvíg á hvort tveggja og fannst áheyrendum þetta skemmtileg nýbreytni, eitthvað alveg óvænt.

Þetta vor var minnst 30 ára afmælis Árvöku Selfoss og tók kórinn þátt í því með tónleikum.

Jöklar frá Hornafirði  komu í heimsókn að Flúðum í maí og tóku þátt í tónleikunum þar, þeir hafa aldrei talið eftir sér ferðalögin.

Ferðalag Karlakórsins þetta vor varð söngferð í Borgarfjörð, og var sungið í kirkjunni í Reykholti. Það lá við að ekki fengist leyfi fyrir flutningi síðari hluta tónleikanna í því heilaga húsi en var þó látið gott heita.

Á aðalfundi 2002 hætti Eyvindur farsælli formennsku eftir sex ára starf og í hans stað kom þá Valdimar Bragason. Á þessum fundi kemur fram að bókhaldsliðurinn “tekjur af tónleikum” fari hækkandi enda aðsókn í sögulegu hámarki. Má reyndar segja að allt frá þeim tíma hafi aðsókn verið ákaflega góð hvar sem kórinn kemur fram. Það er orðið flott að vera í karlakór og áheyrendur láta sig ekki vanta. Helena hætti undirleik  þetta vor, hún hafði nú orðið mörgu að sinna og var meðal annars stjórnandi Jórukórsins sem undanfarin ár hefur verið í góðu samstarfi við karlakórinn. Í hennar stað var ráðinn Julian Edward Isaacs og hefur hann leikið með kórnum síðan.

Þrátt fyrir velgengni á flestum sviðum var veturinn 2002-3 talinn frekar “magur” í starfi kórsins og það var hvatt til aðhalds. Brottfall er nokkuð en ekki vitað hvers vegna, þarf aftur að “poppa” upp prógrammið?

En það kostar peninga að hafa heila hljómsveit í vinnu. “Gæti kórinn kannski stofnað sína eigin”?

 

Kóramót á Selfossi

Haustið 2003 stóð kórinn fyrir sameiginlegum tónleikum allmargra kóra af Kötlusvæðinu í Íþróttahúsinu á Selfossi. Þeir tónleikar voru vel heppnaðir og um kvöldið var svo haldin árshátíð Karlakórsins í Hótel Selfoss með þátttöku gestanna. Það er heilmikið fyrirtæki að halda svona mót, jafnast nærri því á við Kötlumót.

Vorið 2004 var farið í ferð á Reykjanes með viðkomu í Bláa lóninu og síðan ekið til Nesjavalla þar sem Orkuveita Reykjavíkur stóð fyrir rausnarlegri móttöku og fékk söng að launum.

Gist var á Nesjavöllum en ekið daginn eftir til Þingvalla og áð þar í Bolabás. Þar voru fram bornar veitingar í boði ölsjóðs svo sem venja hefur verið í ferðum kórsins í nærri fjörutíu ár og mætingaverðlaun afhent.

Í október 2004 var aftur kallað til kóramóts á vegum karlakórsins, nú var sungið í minningu Páls Ísólfssonar í Hólmarastarhúsinu á Stokkseyri. Þar voru 9 kórar mættir og æfðu fyrri hluta dagsins en héldu svo sameiginlega tónleika, þar sem hvert sæti var skipað og ríflega það. Við þetta tækifæri var undirritaður samstarfssamningur Tónminjasetursins á Stokkseyri og Sambands íslenskra karlakóra, sem nú er við bestu heilsu.

Um kvöldið var svo árshátíðin haldin á Hótel Selfoss með líku móti og áður nema nú var alloft minnst á 40 ára afmæli Karlakórs Selfoss sem nálgast óðum. Bæjarstjórn bauð fordrykk og gestirnir gáfu gjafir, þar sem þeir gerðu ekki ráð fyrir að verða boðnir til veislu í mars 2005 var vissast að ljúka því strax.

 

Það eru liðin fjörutíu ár

Nú er Karlakór Selfoss fjörutíu ára, veturinn hefur verið vel nýttur til æfinga eins og þeir sem á undan fóru. Þriðji geisladiskurinn kemur út á árinu, vorvertíðin nálgast með öllum sínum tónleikum, ferðum og skemmtunum. Allt er í eðlilegum skorðum, og þó. Ferðanefnd undirbýr enn eina ferð, á slóðir vesturfaranna,  þangað sem vinnufúsir Íslendingar fluttu fyrir meira en hundrað árum til að höggva skóg og sá í frjósamari og stærri akra en nokkurntíman yrðu til á Íslandi. “Landið kostaði hérumbil ekki neitt”. Karlakórinn er á leið til Kanada.

Og þá hefst aftur sagan endalausa, með einhverju móti þarf að fjármagna það. Ungum kórmanni datt snjallræði í hug: Hvernig væri að stofna klúbb eldri félaga sem gjarnan vildu halda sambandi við kórinn og styðja til góðra verka og ferðalaga, til dæmis með veglegu styrktarfélagagjaldi?

Styrktarfélagarnir aftur komnir á kreik!

En það var víst bara grín, þessi ferð verður farin á eigin reikning  eins og allar aðrar ferðir, með samstilltu átaki Karlakórs og kvennaklúbbs hefur það alltaf bjargast.

Og það verður sungið í Kanada –  þar verður mikið sungið.

 

Hefðbundin verkefni og tilfallandi

Á öllum þessum árum hefur verkefnum kórsins fjölgað ár frá ári. Í fyrstu var eingöngu gert ráð fyrir tónleikum á vorin á Selfossi og svo fáeinum öðrum stöðum eftir ástæðum en fljótlega var farið að biðja um söng við hin ýmsu tækifæri. Íþróttamót, afmælishátíðir, árshátíðir og annað af ólíku tagi hefur orðið stór þáttur í starfinu og jafnvel sungið þannig oftar yfir árið en á hefðbundnum tónleikum. Oft hefur kórinn haft starfandi kvartett sem hefur tekið að sér ýmis verkefni, nokkuð var um það áður að beðið væri um kvartett við jarðarfarir en nú í seinni tíð hefur mjög aukist að kórinn allur syngi við slík tækifæri. Þess má geta að eins og við er að búast hafa nokkrir kórfélagar látist á öllum þessum árum og er þá oftar en ekki að Karlakórinn sér um útfararsönginn.

Aðventutónleikar eru enn árvissir þó safnaðarheimilið sé löngu risið. Önnur góð málefni hafa notið innkomunnar á síðustu árum og verður væntanlega alltaf einhversstaðar þörf. Efnisskrá kórsins er jafnan fjölbreytt, hefðbundin karlakórslög höfð í hávegum og það hefur verið lögð áhersla á að syngja verk eftir sunnlensk tónskáld . Léttar syrpur og jafnvel  dægurlög eru gjarnan á söngskránni. Það er úr ýmsu að moða í lagasafninu.

 

Kórstarfið

Allt frá stofnun Karlakórs Selfoss hefur verið svipað fyrirkomulag á æfingum. Það er komið saman í október og þá gjarnan byrjað á að rifja upp lög frá síðasta ári, svona til að komast í gang. Svo taka við jólalögin og síðan annað sem valið hefur verið til flutnings það árið. Lagavalsnefnd hefur starfað frá því á níunda áratug liðinnar aldar og í samráði við söngstjóra velur hún viðfangsefni vetrarins.

Æfingar hafa nærri alltaf  verið tvær á viku og þannig verða þær  aðeins innan við fimmtíu yfir veturinn. Ef mikið liggur við, t.d. í sambandi við utanlandsferðir eða önnur sérstök viðfangsefni hefur stundum verið æft lengur fram á vorið og æfingar þá orðið flestar allt að 60 yfir starfsárið.

Nefndum og ráðum hefur fjölgað verulega í áranna rás. Einu sinni var feykinóg að hafa lögskipaða stjórn og svo skemmtinefnd og ölmann, þarfirnar voru ekki meiri þá.

Ölmaðurinn varð óþarfur og lagður niður eftir að kórinn fékk húsnæði fyrir starfsemina. Eftir það er bara hellt á könnuna og raddirnar skiptast á að gera það. Skemmtinefnd verður hins vegar ekki lögð niður en henni eykst ábyrgð þar sem hún heitir nú “Skemmti- og ferðanefnd.”

Þegar kórinn eignaðist húsnæði varð til húsnefnd sem augljóslega á að hafa umsjón með félagsheimili kórsins og skal þar að auki sjá um palla og skerma sem notaðir eru á tónleikum. Þess vegna heitir hún “Hús- og pallanefnd”.

Söngskrárnefnd annast útgáfu söngskrár vor hvert, auglýsingasöfnun og annað sem því tilheyrir. Svo eru skoðunarmenn sem einu sinni hétu endurskoðendur og umsjónarmaður mætingaskrár.

Eðlilega létta allar þessar nefndir mjög á aðalstjórninni sem þrátt fyrir það hefur í nógu að snúast.

Allmargir félagar hafa í gegnum árin sungið einsöng eða tvísöng með kórnum á tónleikum og svo inn á diskana sem út hafa komið. Það er hverjum kór mikils virði að geta gengið í eigin smiðju eftir góðum einsöngvurum.

 

Húsnæðismál og eignir

Þeir félagar sem starfað hafa með kórnum frá upphafi muna nú tímana tvenna, þá var ekki alltaf vitað hvar næsta söngæfing yrði haldin og aðstæður voru misjafnar. Eða í kreppunni þegar leita þurfti á náðir “hreppsins” eftir geymsluhúsnæði fyrir það litla sem til var af lausum munum, fjörutíu og eitt stk. kórföt, flekar, pallar og píanó.

Nú á kórinn í félagi við kvennaklúbbinn eigið húsnæði sem dugir vel til félagsstarfsins. Góður salur, skrifstofa og eldhús allt búið þeim tækjum og húsgögnum sem nauðsynleg eru fyrir rekstur svona húss, flygill og heilmikið af fallegum hlutum. Listinn yfir lausamuni yrði nú verulega lengri en sá fyrri ef allt væri upp talið. Dagleg umhirða húsnæðisins krefst heilmikillar vinnu og hafa félagar þar notið meðeigenda sinna í Kvennaklúbbnum og dæmi eru um konur sem eiga þar sitt “annað heimili”. Það er aðeins eitt sem hægt væri að finna að þessu ágæta félagsheimili – það stefnir í að það verði of lítið.

 

Katla, samband sunnlenskra karlakóra

Þegar Karlakór Selfoss var stofnaður voru til ein samtök karlakóra í landinu, Samband íslenskra karlakóra sem um þær mundir svaf Þyrnirósarsvefni. En það brá til hins betra og nú er Sambandið virkur félagsskapur allra karlakóra á Íslandi sem svo skiptast aftur í tvö landshlutasambönd, Heklu fyrir norðan og Kötlu hér syðra.

Katla, samband sunnlenskra karlakóra, var stofnað árið 1975 og er félagssvæði þess Suðurland frá Hornafirði að Snæfellsnesi. Aðildarkórar eru nú 11, sá austasti á Hornafirði og vestasti í Borgarfirði.

Sameiginleg söngmót, Kötlumót eru haldin á fimm ára fresti og sjá kórarnir um þau til skiptis. Þá er komið saman að morgni og æft fram eftir degi. Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur tekið þátt í flestum mótum og það þarf að æfa með henni.

Síðdegis eru svo tónleikar og  þá syngja kórarnir fyrst hver fyrir sig en sameinast svo allir í einn stóran karlakór, oftast á fjórða hundrað manns og þá veitir ekki af stórri hljómsveit til að undirleikurinn heyrist.

Á þeim stöðum sem þessi mót eru haldin eru ekki til tónleikahús sem rúma svo stóran kór sem þarna verður til. Víðast eru myndarleg íþróttahús sem hafa þjónað þessu hlutverki ágætlega, þar hefur líka til þessa verið nóg rúm fyrir áheyrendur en þeim fer sífellt fjölgandi.

Kórarnir innan Kötlu hafa svo líka samstarf á öðrum sviðum. Heimsóknir og sameiginlegir tónleikar tveggja eða fleiri kóra eru árlegir viðburðir og lagasöfn eiga þeir allir sem standa sambandsfélögunum opin.

 

Auglýsendur eru styrktarfélagar

Það er ekki víst að allir hafi áttað sig á því að þó að styrktarfélagarnir væru lagðir til hliðar eru þeir enn til og hreint ekki svo fáir. Þeir ganga bara ekki undir sama nafni og áður og það vílar enginn fyrir sér að heimsækja þá. Nú heita þeir “Auglýsendur” og eru kórnum mikils virði. Á hverju vori kemur söngskráin út og verður feitari og fallegri með hverju ári. Það sem gerir hana feita eru auglýsingar og styrktarlínur þeirra ágætu fyrirtækja og einstaklinga sem gjarnan vilja styðja við bakið á kórnum með auglýsingu í söngskrá. Nokkrir hafa verið þar á blaði allt frá upphafi og fjöldamargir árum saman. Það eru stór og smá fyrirtæki um Suðurland allt og jafnvel út fyrir það. Þetta ber að þakka og er kórfélögum að sjálfsögðu ætlað að beina viðskiptum sínum þangað sem söngskráin vísar þeim.

 

Félagslífið

Allt frá upphafi hefur félagslífið verið stór þáttur í kórstarfinu. Árshátíðir voru haldnar strax fyrstu árin og urðu fastur liður. Á hverju ári oftast í byrjun mars var farið að æfa fyrir árshátíð í Bíóinu.

Að halda árshátíð var ekkert smá fyrirtæki á þeim tíma, þar var alltaf skemmtidagskrá og auðvitað söngur. Heimagerð skemmtiatriði voru æfð kvöld eftir kvöld, konur jafnt sem karlar tóku þátt í því. Skemmtinefnd kvennaklúbbsins gekk að því sem þurfti með körlunum og allir tóku þátt. Það voru leikrit, revíur og kveðskapur sem allt var samið af félögunum sjálfum og er þar ekki á neinn hallað þó nefndur sé Gunnar Guðmundsson frá Egilsstöðum sem var snillingur í að setja saman skemmtiefni af öllum toga. Að hafa Selfossbíó með leiksviði var ekki lítils virði og mörg kvöldin var þar verið lengi frameftir. Ef ekki var annað um að vera í húsinu mátti æfa þar endurgjaldslaust, bara fá lánaðan lykilinn. Eftir fall bíósins breyttist þetta nokkuð, það var ekki leiksvið í þeim nýju húsum sem hér var að hafa, en alltaf hefur verið byrjað á söng og einhverskonar skemmtiatriðum þó að þau sem æfð voru á fyrri árum standi alltaf uppúr. Í nokkur ár voru haldnar árshátíðir í samstarfi við aðra kóra á staðnum og þá oftast í Hótelinu.

Myndakvöldin komust á þegar farið var að ferðast á vorin, það var líka Gunnar sem ruddi brautina þar. Hann safnaði saman “slides” myndum, raðaði þeim upp og samdi ferðasögu með. Þetta voru – og eru reyndar enn – óborganleg ævintýri þó stundum komi fyrir að eitthvað sé orðum aukið eða ekki alveg í samræmi við það sem menn þykjast muna.

Svo er Flúðaballið enn einn liður í skemmtanahaldinu og hefur nú verið haldið árlega í 30 ár. Það er haldið eftir síðustu vortónleika hvers árs og hafa hreppamenn allt frá upphafi verið duglegir að fagna sumri með kórnum.

Allar þessar samkomur byggjast að mestu á þáttöku félaganna sjálfra en gestir hafa verið tíðir og gjarnan ánetjast til frambúðar. Það þótti eitt sinn gott ráð til að laða nýja félaga að kórnum að bjóða þeim á myndakvöld.

Afmælisveislur kórfélaga hafa verið veigamikill þáttur í skemmtanalífinu. Fæst árin líða svo að ekki sé boðið til tveggja eða þriggja afmælishátíða. Eitt sinn sagði góður maður að hann hefði gengið í karlakórinn til að fá almennilegan söng í afmælið sitt.

 

Ferðalögin

Fyrsta ferðalagið verður öllum ógleymanlegt sem þar voru, á Blönduós 1970 í rútu frá Stjána í Hveragerði. Ferðin norður gekk áfallalaust og þar voru haldnir tónleikar á laugardagskvöldi. Ekki var aðsóknin til að hrópa húrra fyrir, níu keyptu sig inn í myndarlegt félagsheimilið á Blönduósi en konurnar fylltu uppí og svo var auðvitað bílstjórinn.

Á miðjum konsert gekk lögreglan í Húnavatnssýslu í salinn og hirti bílstjórann. Hann var bara leiddur úr húsinu án þess að nokkur fengi að gert, enda ekki gott um vik í miðju lagi.

Það kom svo á daginn að hann hafði farið frjálslega með þungatakmarkanir og þegar heim var haldið varð hluti af hópnum að fá far með Norðurleiðarrútunni út fyrir sýslumörk.

Vorferðir urðu svo árvissar og og fyrstu árin voru það eingöngu skemmtiferðir og oftast farið í byrjun júní.

Það var ekki nauðsynlegt að fara langt en alltaf var gist eina nótt. Þá var ekki verið að elta hótel með svítum og baði heldur farið í skóla eða samkomuhús og legið þar í flatsæng á salargólfi, allir í einu rými og þótti gott.

Þá var ekki endilega snemma lagst til hvíldar og þegar loksins þeir síðustu voru komnir í ró voru þeir fyrstu að vakna – og vöktu þá auðvitað alla aðra. Enda ekki farið í skemmtiferðir að vori til að sofa af sér sólarupprás á sumarnóttu. Þetta voru frábærar ferðir og enn í dag þegar  gist er á hótelum í einka herbergjum er nokkuð um að það fólk sem naut sín hvað best á þessum árum leiti fyrir sér hvort ekki sé einhversstaðar skot í hótelinu eða skólanum þar sem hægt væri að útbúa svolitla “kommúnu” svona til að rifja upp gömlu dagana.

Svo var líka farið í söngferðalög og komið víða við. Það hefur verið sungið, eða reynt að syngja í nærri öllum samkomuhúsum við þjóðveg eitt á leiðinni til Hafnar í Hornafirði. Í einu þeirra varð að hætta við þar sem enginn kom, um miðjan dag á sólríkasta laugardegi vorsins.

Að norðanverðu hefur lengst verið farið til Húsavíkur. Þegar kórinn fór til Færeyja má segja að í leiðinni hafi verið ekið hringinn í kringum landið.

Það var ekki alltaf farið troðnar slóðir og það kom fyrir að kórmenn yrðu að draga rútuna með sjálfum sér í ófæru á fáförnum fjallvegum.

Í þessi ferðalög var oftast framanaf fengin rúta með bílstjóra hjá Sérleyfisbílum Selfoss og bílstjórar sem einu sinni byrjuðu að keyra Karlakórinn létu það starf ekki  átakalaust af hendi. Ætli þeir hafi verið nema svona fjórir á ríflega 30 ára tímabili og hefðu þeir einhvern snefil af lagi var næsta víst að þeir gengju í kórinn ef  þeir hættu hjá Sérleyfinu. Enda hefur Karlakórinn hin síðustu ár verið algerlega sjálfbjarga með rútubílstjóra. Nú þarf bara að fá lánaða rútu.

Þá hefur einnig verið farið í útilegur á sumri. Eftir eina slíka, austur að Seljavöllum í mesta vatnsveðri sem þar hafði komið í langan tíma, hefur orðið minna úr þeim ferðum.

 

Kvennaklúbburinn

Í janúar 1972 var Kvennaklúbbur Karlakórsins stofnaður. Konur kórfélaganna fundu það þegar farið var að halda skemmtanir og ferðast að þær voru ekki svo kunnugar sem æskilegt væri. Þær höfðu líka heyrt hjá eiginmönnunum að kórnum væri þörf á stuðningi.

Tvær þeirra tóku sig þá til og heimsóttu konurnar eina af annarri, báru undir þær hugmyndina um stofnum kvennaklúbbs og varð vel ágengt. Allar sem ein voru þær tilbúnar í slaginn.

Þann 18. janúar komu þær svo saman í litlu herbergi í húsnæði Tónlistarskólans á Tryggvagötu 14 og stofnuðu félagið sem síðan hefur verið máttarstoð kórsins.

Það var eins hjá þeim og körlunum, fyrstu árin einkenndust af hlaupum á milli húsa. Gagnfræðaskólinn var ákaflega gott skjól í langan tíma, svo Iðnskólinn og Skarphéðinssalurinn. Það mátti segja að þær fetuðu slóð kórsins hvað þetta snerti.

En það var sama hvar þær áttu athvarf, stöðugt  unnu þær að fjáröflun og notuðu til þess ýmis ráð og þær högnuðust vel. Kórinn hefur notið starfa þeirra frá fyrsta degi í formi gjafa á afmælum og vinnu þegar á þarf að halda. Fjárframlög hafa svo komið til við áríðandi tækifæri.

Nú á Kvennaklúbburinn Félagsheimilið til helminga á móti kórnum og tekur fullan þátt í rekstrinum og sambúðin er góð.

 

Utanlandsferðir

 

Wales

Þegar fyrstu lög félagsins voru samþykkt er ekki víst að allir fundarmenn hafi haft trú á að önnur grein laganna yrði svo leiðandi sem orðið hefur.

“Að félagið skuli leggja áherslu á ferðalög til útlanda og kynna þar íslenskan karlakórssöng”.

Fyrsta ferð kórsins á erlenda grund var farin 1981 á tónlistarhátíð og söngkeppni í Wales. Þangað var farið í boði kórs sem hafði komið í heimsókn á Selfoss nokkru fyrr.

Eftir eina nótt í London var ekið til Llangollen í Wales þar sem þessi árlega tónlistarhátíð “International eisteddfood” er haldin. Mótssvæðið var skoðað en síðan farið til smábæjar skammt frá þar sem öllum hópnum var deilt niður á einkaheimili. Fólkið þarna tekur á móti hátíðargestum á hverju ári og dagana sem hátíðin stendur gerir það fátt annað en að sinna og skemmta gestum sínum sem best má verða. Þarna var svo dvalið fjórar nætur við æfingar og skoðunarferðir á dagin og heimboð og skemmtanir á kvöldin. Á fjórða degi var svo hápunkturinn fyrir kórinn, söngkeppnin og alþjóðlegt karlakórakvöld.

Þessi hátíð var algert ævintýri fyrir ferðalangana, þar var samankomið tónlistarfólk frá flestum heimshornum og bar margt nýstárlegt fyrir augu.  Að keppa í kórsöng er ekki daglegt brauð á Íslandi en þarna var keppt í mörgum flokkum tónlistar. Ekki gekk Karlakór Selfoss með verðlaun frá borði en hann fékk góða dóma og ómetanlega reynslu.

Nú var komið að því að heimsækja kórinn sem hingað hafði komið og upphaflega bauð okkur heim, til Ffestiniog, lítils námubæjar þar sem allt var grátt og frekar smátt í sniðum. Ekki höfðu allir kórfélagar þar aðstæður til að hýsa gesti sína en höfðu þá komið þeim annarsstaðar í hús og notuðu önnur ráð til að láta óendanlega gestrisni í ljós.

Þeir buðu í skoðunarferð niður í námuna, þar sem margir þessara ágætu söngmanna  unnu lengst af ævinni. Við sólarupprás fóru þeir mörghundruð metra ofaní jörðina og komu ekki aftur upp fyrr en með dimmunni. Þeir voru ekkert að súta það og sýndust  sáttari við lífið en margt sólskinsbarnið.

Það voru haldnir tónleikar og svo buðu heimamenn til veislu, hver með sínum gestum. Þarna var margt framandi fyrir Íslendinga sem vanir voru lífsgæðum meiri og betri en víða gerist í heiminum.

Eftir tveggja nátta gistingu, skoðunarferðir um nágrennið og meiri veislur var komið að kveðjustund. Karlakórsmenn með konum sínum héldu til stórborgarinnar London.

Þar gisti hópurinn í sex nætur og var heilmikið skoðað, farið í ferðir um borgina og  nágrennið. Litið á hallir og kastala, söfn og sýningar, leikhús og bjórkrár, sem þá voru fjarlægur draumur á Íslandi.

Þetta var sumarið sem Kalli prins og Díana giftu sig og mátti sjá merki þess um alla borg. Þó ekki sé lengra síðan en 24 ár voru stórborgaferðir ferðaskrifstofanna ekki orðnar jafn sjálfsögð upplyfting og nú er. Þess vegna er mörgum þessi Lundúnaheimsókn algert ævintýri. Kvöldganga í Soho þótti mögnuð upplifun, heimsókn á þjófamarkað og áfallið þegar einn félaginn kom heim á hótel eftir kvöldrölt og hafði verið brotist inn í herbergið. Allt var þetta bara spennandi.

Hálfum mánuði eftir heimkomuna var ein frú úr hópnum eftirlýst af Interpool! Á Selfossi hafði hún til þessa verið talin mesti meinleysingi!

 

Til Fuglafjarðar

Sumarið 1985 þáði kórinn heimboð frá Fuglafirði sem er vinabær Selfoss í Færeyjum. Þó að leiðin lægi út fyrir landsteinana var ekki brugðið út af þeim vana að fara á rútu frá Sérleyfisbílum Selfoss. Undir stýri var Eyvindur sem á þeim árum var innifalinn í samningum kórsins við sérleyfið. Lagt var af stað klukkan fimm um nótt og ekið viðstöðulítið til Egilstaða þar sem gist var. N næsta dag var  farið niður á Seyðisfjörð þar sem rútan og farþegar allir fóru um borð í ferjuna Norrönu og hófst svo 18 klst. skemmtisigling til Þórshafnar. Ekki var þó öllum skemmt því aðeins bar á sjóveiki.

Frá Þórshöfn var ekið til Fuglafjarðar þar sem heimamenn buðu gistingu í skólanum. Þeir vissu ekki um gistivenjur kórfólksins í ferðalögum og skiptu því hópnum í kvenna og karladeildir.

En allur aðbúnaður var ágætur og  móttökur höfðinglegar, hópnum var boðið í fyrirtæki og stofnanir og svo voru haldnir tónleikar í skólanum. Einhversstaðar fann ég skrifað eftir ferðina “ að í Fuglafirði sé undirlendi ekkert og hangi því húsin utaní hlíðum hárra fjalla”. Í þessum hangandi húsum bjó greinilega þægilegasta fólk sem gaf sig að okkur á götunum og vissi greinilega öll deili á Selfossi og því sambandi sem var okkar á milli. Þetta þægilega fólk kom á tónleikana og sýndi með góðum undirtektum að það hafði gaman af.

Bæjarstjórn bauð svo til veislu þar sem setið var og borðað og sungið á víxl í fjóra tíma. Síðan var okkur kenndur færeyskur dans sem stiginn var af miklum móð langt fram eftir nóttu.

Næsta dag var farið frá Fuglafirði til Þórshafnar og flutt þar inn á Hótel Borg. Síðdegis var svo sungið í Norðurlanda húsinu fyrir  350 gesti sem fögnuðu vel. Eitthvað var þar af Íslendingum. Við rákumst á þá nokkra í bænum dagana sem við dvöldum þarna og þeir vildu gjarnan hafa tal af okkur.

Daginn eftir var svo farið í ferð með ferju til Klakksvíkur og ekið þaðan til Viðareyði sem er nyrsta byggð í Færeyjum. Allt var þar með heldur gömlu lagi en gaman að sjá. Á þessari leið var farið um tvenn jarðgöng en af þeim er mikið í Færeyjum. Það var eitt af því sem var okkur nýnæmi, þá voru víst bara Siglufjarðar og Súðavíkurgöngin til á Íslandi og þar áttum við ekki oft leið um. Sérleyfisbílstjórinn lét sér ekki bregða þó vegirnir í Færeyjum væru öðruvísi lagðir en á Íslandi. Þegar komið var útúr löngum og dimmum göngum mátti eins búast við að rútan sneri stefni til hafs fram af þverhníptri bjargbrún. Þá átti að taka vinkilbeygju út úr göngunum og það gerði bara þessi ágæti bílstjóri á X 116 eins og hann hefði aldrei gert annað en farþegarnir sátu stundum fölir og hljóðir.

Nú var aftur haldið til Klakksvíkur þar sem okkur var boðið  á bæjarstjórnarfund og síðan sungið í skólanum áður en aftur var ekið um borð í “Þernuna” sem flutti okur til baka.  Þegar búið var að koma rútunni um borð drógu skipstjórnendur upp tommustokka og fóru að mæla hana á alla kanta. Ef ekki mátti flytja á þessu skipi bíla yfir ákveðinni lengd hefðu þeir átt að athuga það áður en þeir fluttu okkur yfir á þennan hólma. Ekki gátu þeir með góðu móti skilið okkur þar eftir! Kannski höfðu þeir bara aldrei séð svona stóra rútu og vildu geta sagt frá hversu löng hún var og hverslags kraftaverk væri að hún gat náð öllum beygjum á leiðinni að Viðareyði. En við komumst klakklaust til Þórshafnar og dvöldum svo þar næstu tvær nætur í góðu yfirlæti. Heldur fannst okkur hótelið fína “Hótel Borg” illa staðsett, það er hátt í hlíðinni fyrir ofan bæinn og örugglega frábært útsýni á góðviðrisdögum. En sé þoka á sveimi læðist hún með hlíðum og hún var einmitt á ferðinni dagana sem við gistum þarna. En við kunnum ráð við því, fórum bara niður í bæ þar sem sólin skein og skoðuðum svo líka ýmsa staði í grenndinni þar til ferjan kom  og tók okkur með heim til Íslands.

Skotlandsferð

Þriðja utanlandsferð kórsins var farin sumarið 1992 til Glasgow í Skotlandi. Ekki var um neitt heimboð að ræða í þetta sinn heldur var ferðin  í anda vorferða. Aðeins lengra farið og meira við haft. Skipulagið í höndum ferðanefndar og undir fararstjórn Magnúsar Karels sem áður hafði haft stjórn á ferðalöngum í Wales.

Gist var á “Hospitality Inn  hótelinu” í Glasgow og svo ferðast út frá því.

Eftir að fólk hafði komið sér fyrir  um hádegisbil var frjáls tími þangað til síðdegis þegar farið var í feiknastóra verslunarmiðstöð  í miðborginni- ekki til að versla – heldur í smoking með slaufur til að syngja fyrir borgarbúa í kaupstaðarferð.

Það gekk nokkuð brösulega að finna hentugan stað til söngs í þessari miklu “kringlu” en tókst þó að lokum. Þarna voru sungin nokkur lög og trúðu söngmenn því að búðarrápendur hefðu hrifist af. Svo var farið út á götuna og stillt upp aftur til meiri söngs og þá duldist engum sem heyrði að þar var hljómurinn miklu betri. Vegfarendur stöldruðu við og höfðu greinilega gaman af.

Næsta dag var svo ferðast um skosku hálöndin. Það var ekið um fallegar sveitir og komið við á ýmsum stöðum. Sigling um eitt af fallegustu stöðuvötnum Skotlands féll þó niður þar sem töf varð í einni frábærri ullarvörubúð þar sem seld voru skotapils og treflar.

Síðdegis var komið til “Cameron house hotel” þar sem svo var haldin vorhátíð kórsins. Að þessu sinni í fínustu sparifötum með hátíðarkvöldverði. Venjulegast var að þessi hátíð færi fram úti í grænkandi íslenskri náttúru. Þetta hótel er í stórum kastala, vafalaust eldgömlum og þar var allt með miklum glæsibrag. Vindillinn með kaffinnu eftir matinn kostaði 800 krónur íslenskar, svo þetta var örugglega afburða flott hótel.

Þarna fóru svo fram hefðbundnar athafnir. Viðurkenningar fyrir mætingar á æfingum, ýmis skemmtiatriði samin og flutt af félögunum og svo var auðvitað mikið sungið.

Þar voru svo líka heiðraðir “merkismenn” í fyrsta sinn og var vel við hæfi að það væri gert við svo konunglegar aðstæður sem þarna voru.

Seint um kvöldið var svo farið aftur á hótelið í Glasgow.

Á þriðja degi var svo farið til Edinborgar sem er ekki löng ferð. Þar var litið á kastala og ekið um miðborgina til skoðunar. Svo var rápað í búðir þar til komið var saman á hóteli til kvöldverðar.

Svo var kominn lokadagurinn og flogið heim um hádegi. Þessi ferð var ekki löng en nýttist alveg ljómandi vel. Við sáum heilmikið af landinu og þó ótrúlegt sé tókst að versla heil ósköp. Töskurnar sem troðið var í rútuna sem sótti okkur til Keflavíkur voru miklu fleiri, stærri og feitari en þær sem lagt var af stað með fjórum dögum fyrr.

 

Weyhe í Þýskalandi

Í ágúst árið 1998 fór kórinn í sína fjórðu utanlandsferð. Að þessu sinni til Þýskalands í boði Chorvereinigung Leeste sem er blandaður kór í Weyhe sem er einskonar Árborg nokkurra minni sveitarfélaga nærri Bremen.

Í þessum kór átti einn af okkar mönnum, Hólmgeir Óskarsson, bróðurinn Hlyn og áttu þeir stærstan hlut í að koma þessum samskiptum á.

Það var flogið til Hamborgar og þar var tekið á móti okkur með fánum og blómum. Síðan var ekið í rútum til Weyhe.

Ekki voru viðtökurnar síðri þar, stjörnuljósaflóð fyllti skólalóðina þar sem gestgjafarnir biðu okkar. Fundu þau svo hvert sín fósturbörn og fluttu inn á heimilin. Nokkrir höfðu kosið að búa á hóteli og var þeim skilað þangað.

Móttökur þarna voru svo frábærar að erfitt er að lýsa. Heimamenn lögðu sig alla í að sinna gestunum, matur heima á öllum málum og veislur á hverju kvöldi. Það virtist takmark gestgjafanna á meðan við dveldum hjá þeim skyldum við engum peningum eyða, þeir áttu að sjá um allar þarfir. Hver einasti dagur var hátíðisdagur og alltaf jólamatur.

Fyrstu tónleikarnir voru haldnir í Weyhe með heimakórnum fyrir fullu húsi og við mikinn fögnuð áheyrenda. Sérstaka athygli vakti hvað karlakórinn var vel búinn góðum einsöngvurum.

Á sunnudagsmorgni söng svo Karlakórinn við messu í kirkjunni. Held ég að enginn hefði viljað missa af því þó sumum þætti nóg um að mæta þar eftir veislu kvöldið áður. Veislur heimamanna voru reyndar ákaflega vel skipulagðar, þær byrjuðu snemma og svo var þeim bara slitið á skikkanlegum tíma. Það var nokkuð nýnæmi fyrir gestina.

Síðdegis á sunnudegi var svo farið í heimsókn til karlakórs í nágrannabyggð. Silke, kona Hlyns Óskarssonar, stjórnaði báðum þessum kórum sem tóku á móti okkur. Þar voru haldnir tónleikar þriggja kóra, útitónleikar á ævintýralega fallegum stað. Karlakór Selfoss hafði góðan liðsauka í þessari ferð, Guðbjörg Arnardóttir kynnti á tónleikum og túlkaði þar sem þurfti. Annars var mesta furða hvað samskipti gengu vel, flestir björguðu sér ágætlega á ensku.

Næstu daga var farið í skoðunarferðir í ýmis stórfyrirtæki í grenndinni og svo í borgarferð til Bremen þar sem kórinn söng nokkur lög í dómkirkjunni. Það var víða sungið, á torgum og í görðum og  heimamenn fylgdu okkur hvert fótmál og sáu um allar ferðir.

En allt tekur enda og það kom að lokahátið sem var eins og allt annað stórkostleg, með drekkhlöðnu veisluborði, gjafir voru gefnar og þegnar og   þakkar og kveðjuávörp gengu á milli manna. Það var sungið og leikið og sungið meira og svo dansað langt fram á nótt, nú voru engin takmörk sett.  Í Weyhe eignaðist karlakórinn vini sem seint munu gleymast.

Í ferðarlok var svo gist í Hamborg tvær nætur og var það að mestu frjáls tími. Nú var enginn til að elda ofaní okkur, sjálf urðum við að sjá um að afla matar og tókst bara vel. Það var farið í siglingar og skoðunarfeðir. Rápað í búðir og farið í gufubað. Allir fundu þar eitthvað til að skemmta sér við, í Hamborg er margt að skoða.

Það var flogið heim á níunda degi og  væntanlega voru þá flestir hvíldinni fegnir.

 

Helga R. Einarsdóttir

Share

101 thoughts on “Um kórinn

 1. Pingback: 我他媽的媽媽
 2. Pingback: sik kafali
 3. Pingback: 他媽的谷歌
 4. Pingback: oruspu
 5. Pingback: 色情管
 6. Pingback: 他媽的
 7. Pingback: home
 8. Pingback: 2019
 9. Pingback: cleantalkorg2.ru
 10. Pingback: #macron #Lassalle
 11. Pingback: a2019-2020
 12. Pingback: facebook
 13. Pingback: facebook1
 14. Pingback: javsearch.mobi
 15. Pingback: we-b-tv.com
 16. Pingback: hs;br
 17. Pingback: tureckie_serialy
 18. Pingback: serialy
 19. Pingback: 00-tv.com
 20. Pingback: +1+
 21. Pingback: watch
 22. Pingback: ++++++
 23. Pingback: HD-720
 24. Pingback: 2020
 25. Pingback: Video
 26. Pingback: wwin-tv.com
 27. Pingback: movies
 28. Pingback: Watch TV Shows
 29. Pingback: Kinokrad
 30. Pingback: filmy-kinokrad
 31. Pingback: kinokrad-2019
 32. Pingback: serial
 33. Pingback: cerialest.ru
 34. Pingback: youtube2019.ru
 35. Pingback: dorama hdrezka
 36. Pingback: movies hdrezka
 37. Pingback: HDrezka
 38. Pingback: kinosmotretonline
 39. Pingback: LostFilm HD 720
 40. Pingback: bofilm
 41. Pingback: 1 seriya
 42. Pingback: topedstoreusa.com
 43. Pingback: hqcialismht.com
 44. Pingback: lindamedic.com
 45. Pingback: 4serial.com
 46. Pingback: See-Season-1
 47. Pingback: Evil-Season-1
 48. Pingback: Evil-Season-2
 49. Pingback: Evil-Season-3
 50. Pingback: Evil-Season-4
 51. Pingback: Dollface-Season-1
 52. Pingback: serial 2020
 53. Pingback: Dailymotion
 54. Pingback: Watch+movies+2020
 55. Pingback: tvrv.ru
 56. Pingback: 1plus1serial.site
 57. Pingback: #1plus1
 58. Pingback: 1plus1
 59. Pingback: Film
 60. Pingback: Film 2020
 61. Pingback: Film 2021
 62. Pingback: Top 10 Best
 63. Pingback: human design
 64. Pingback: dizajn cheloveka
 65. Pingback: human-design-space
 66. Pingback: koma 2020
 67. Pingback: The-Gentlemen
 68. Pingback: led-2
 69. Pingback: pod-vodoi
 70. Pingback: vk 2020
 71. Pingback: DSmlka
 72. Pingback: viagra
 73. Pingback: viagra online
 74. Pingback: +

Leave a Reply

Your email address will not be published.