Lög karlakórsins

Lög Karlakórs Selfoss samþykkt á aðalfundi 29. ágúst 2016

 1. grein.

Kórinn heitir Karlakór Selfoss og heimili hans er á Selfossi.

 1. grein.

Markmið Karlakórs Selfoss, hér eftir nefndur kórinn, er að æfa og halda uppi karlakórssöng og efla framgang hans í landinu. Ennfremur að fara söngferðir til annarra landa til þess að kynna þar íslenskan karlakórssöng.

 1. grein.

Hver sá er óskar inngöngu í kórinn, og er til þess hæfur að dómi söngstjóra og kórstjórnar, öðlast rétt til þátttöku um eins árs skeið til reynslu. Að þeim tíma liðnum, telst viðkomandi fullgildur kórmaður. Þyki söngstjóra eða kórstjórn ástæða til, geta þeir leitað álits á umsækjanda hjá kórmönum viðkomandi raddar.

 1. grein.

Kórmönnum ber að koma stundvíslega til æfinga og samsöngva nema forföll hamli, og skulu þau tilkynnt með sem mestum fyrirvara. Lögmæt forföll eru veikindi, óhjákvæmilegrar fjarvistir og skyldustörf, sem eigi má fresta.

 1. grein.

Kórmenn skulu rækja skyldur sínar við kórinn og vera honum til sóma í allri umræðu, þar sem hann kemur opinberlega fram og þar sem hann er á ferð. Kórmenn skulu virða lög kórsins, reglur sem aðalfundur hefur samþykkt og faglegar ákvarðanir söngstjóra sem hann tekur að höfðu samráði við stjórn. Brot varðar áminningu frá stjórn og brottvísun ef það er alvarlegt eða ítrekað. Ef kórmaður uppfyllir ekki eðlilegar faglegar kröfur skal stjórn vísa honum úr kórnum í samræmi við reglur sem samþykktar skulu á aðalfundi.

 1. grein.

Úrsögn úr kórnum skal tilkynna til stjórnar. Enginn kórmaður á neitt tilkall til fjármuna eða eigna kórsins.

 1. grein.

Reikningsár kórsins er frá 1. júní til 31. maí og starfsárið það sama.

 1. grein.

Allur ágóði af samsöngvum kórsins, svo og aðrar tekjur hans renna í sjóði kórsins, sem ávallt skulu geymdir og ávaxtaðir á öruggan hátt.

 1. grein.

Stjórn kórsins hefur heimild til að innheimta árgjald af kórmönnum, og skal upphæð þess ákveðin á aðalfundi.

 1. grein.

Til annarra útgjalda úr sjóðum kórsins en venjulegra rekstrargjalda þarf samþykki aðalfundar eða fundar sem sérstaklega er boðað til og þá með a.m.k. viku fyrirvara.

 1. grein.

Aðalfund skal halda fyrir lok ágúst ár hvert og skal hann boðaður með minnst viku fyrirvara á sama hátt og tilkynningar eru sendar til kórmanna. Aðalfundur er löglegur, ef löglega er til hans boðað.

Á aðalfundi skal stjórn kórsins gefa skýrslu um starfsemi hans á liðna árinu og reikningar hans bornir upp til samþykktar. Þá skal og fara fram kosning stjórnar, fastanefnda, skoðunarmanna reikninga kórsins, fulltrúa á aðalfund S.Í.K og Kötlu sambands sunnlenskra karlakóra.

Á aðalfundi og öðrum fundum kórsins, ræður einfaldur meirihluti úrslitum mála, nema öðruvísi sé ákveðið í lögum þessum.

 1. grein.

Í stjórn kórsins skal kjósa 6 menn og 4 til vara.

Formaður og gjaldkeri eru kosnir eftir uppástungu leynilega, en hver kórrödd tilnefnir einn mann og varamann hans sem jafnframt verði raddformaður þeirrar raddar er hann syngur.

Stjórnin skiptir síðan með sér verkum þannig: varaformaður, ritari og meðstjórnendur. Formaður og aðrir stjórnarmenn skulu kosnir fyrst til tveggja ára en síðan til eins árs í senn, ef um er að ræða endurkosningu.

Formaður hefur á hendi allar félagslegar framkvæmdir, hann er fulltrúi kórsins út á við, nema öðruvísi sé ákveðið. Hann boðar til stjórnarfunda og kórfunda og stjórnar þeim. Ritari heldur gjörðarbók kórsins og stjórnar hans, sömuleiðis skrá yfir virka kórmenn. Hann hefur og á hendi bréfaskriftir fyrir kórinn.

Gjaldkeri hefur á hendi allar fjárreiður kórsins og ber honum að skila endurskoðuðum efnahags -og rekstrarreikningi árlega á aðalfundi.

Ef atkvæði á fundi stjórnar falla jafnt með og á móti tillögu skal atkvæði formanns gilda tvöfalt.

 1. grein.

Söngstjóri skal ráðinn af stjórn, að fengnu samþykki kórfundar. Stjórn ákveður í samráði við söngstjóra verkefni kórsins.

 1. grein.

Ef kórinn hættir störfum eitt ár eða lengur, án þess að honum sé slitið á lögmætan hátt, geta  fimm kórmenn krafist þess af síðustu lögmætri stjórn að hún boði til fundar sem taki ákvörðun um málefni kórsins eða slit hans. Verði stjórnin ekki við slíkri kröfu, geta fimm eða fleiri kórmenn boðað til fundarins.

 1. grein.

Ef rétt þykir að slíta kórnum skal boða til fundar um það mál með sama hætti og til aðalfundar. Verður kórnum aðeins slitið, að 2/3 kórmanna á slíkum fundi samþykki það og skal a.m.k. helmingur virkra kórmanna vera mættur á fundinum. Ef kórslit eru löglega samþykkt, ráðstafar sami fundur sjóði kórsins og eignum.

 1. grein.

Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi. Tillögur til lagabreytinga skulu sendar formanni kórsins eigi síðar 14 dögum fyrir aðalfund en hann sendir þær síðan til kórmanna með aðalfundarboði.

 1. grein.

Lög þessi öðlast þegar gildi.

 

Share