Kvennaklúbbur

Þegar Karlakórinn á fyrstu árum fór að ferðast um landið, halda skemmtikvöld og árshátíðir, voru konurnar að sjálfsögðu með. En þær þekktust ekki mikið innbyrðis. Til að bæta úr þessu kom upp sú hugmynd að stofna félagsskap eiginkvenna kórmanna.

Haustið 1971 lögðu tvær konur upp í göngu um bæinn, sem þá var reyndar bara þorpið Selfoss og leiðir ekki langar. Margrét Ó. Óskarsdóttir og Helga R. Einarsdóttir skiptu með sér og heimsóttu allar konur sem þær vissu búandi með kórmönnum og spurðu hvort þær vildu vera með í félaginu. Sumar höfðu aldrei komið með í ferð eða á samkomur en allar sem ein svöruðu þessu játandi. Það var alveg sjálfsagt að stofna svona samtök.

Fer nú hér á eftir fundargerð stofnfundar.

Stofnfundur samtaka eiginkvenna félaga í Karlakór Selfoss var settur að Tryggvagötu 14 b þriðjudaginn 18. jan 1972 kl. 9.00 eh. Helga Einarsdóttir setti fundinn og skipaði Guðmundu Ólafsdóttur fundarstjóra. Hún bað svo Guðmundu Auðunsdóttur að vera fundarritara.

Þá var byrjað á að kjósa stjórn og var

Helga Einarsdóttir einróma kosin formaður

Margrét Óskarsdóttir gjaldkeri

Guðmunda Auðunsdóttir ritari

Guðmunda Ólafsdóttir til vara

Síðan hófust umræður um nafn á félagsskapinn og var það einróma álit að nafnið yrði að tengjast kórnum á einhvern hátt. Þar sem það væri okkar eina markmið að starfa í þeirra þágu.

Aðalleg var rætt um þrjú nöfn.

Það voru: “Stoð karlakórsins”, “Kvennaklúbbur karlakórsins” og “Konur kórbræðra”.

Samþykkt var að nafnið yrði “Konur kórbræðra”.

Ákveðið var að hittast fyrsta fimmtudag í hverjum mánuði, kl. 9.00 að kvöldi, heima hjá einni af félagskonunum til skiptis og fara þá t.d. eftir stafrófsröð.

Þetta áttu að vera kaffifundir og hver félagskona borgaði 100 krónur í hvert skipti. Allar áttu að borga, hvort sem þær gætu mætt eða ekki.

Reglur voru settar um að ekki mætti hafa nema þrjár sortir af kökum með kaffinu. Velja mætti um: formkökur, hvítar eða brúnar, kleinur, pönnukökur, vöfflur og flatkökur.

Þá las formaður málefnasamning sem starfað skyldi eftir og var hann á þessa leið:

“Við erum hér samankomnar í kvöld, konur félaga í Karlakór Selfoss í þeim tilgangi að stofna til samtaka okkar í milli.

Hugmyndin er að við störfum í samvinnu við kórinn að öllum þeim málefnum sem honum gætu orðið til góðs á allan þann hátt sem okkur er fært. Bæði eftir okkar eigin hugmyndum og ekki síður ábendigum og tilmælum kórfélaganna.

Við munum kjósa þrjár konur úr okkar hópi til þess að hafa stjórn á öllum hinum og til þeirra skal stjórn karlakórsins snúa sér óski þeir eftir afnotum af kvenlegri skynsemi”.

Þetta var einróma samþykkt.

Að lokum skrifuðu allar fundarkonur nafn sitt í fundargerðabókina.

Þá var fundi slitið.

Tuttugu og tvær konur skrifuðu nafnið sitt í bókina þetta kvöld.

Á fyrsta kaffifundi var nafnið á félaginu tekið til endurskoðunar. “Þar sem óánægju hafði gætt með það hjá eiginmönnum og nokkrum félagskonum”, stendur í fundargerð. Satt að segja gat gjaldkeri ekki hugsað sér að segja þetta nafn upphátt í Landsbankanum þar sem hún á fyrstu dögum stofnaði reikning til ávöxtunar hundraðkallanna.

Nafnið varð svo Kvennaklúbbur Karlakórs Selfoss og hefur gefist vel bæði í bönkum og annarsstaðar.

Síðan eru liðin 37 ár.

Kvennaklúbburinn hefur síðan starfað óslitið og verið kórnum ómetanleg stoð. Þó aldrei hafi verið lagt ofurkapp á fjáröflun hafa hundraðkallarnir orðið fleiri en talið verður og konunum orðið allt að féþúfu.

Þær hafa gefið kórnum góðar gjafir, lagt sitt af mörkum við utanlandsferðir og eiga nú hlut í félagsheimilinu sem þær reka með kórnum. Þar eru nú haldnir fundir og aðrar samkomur klúbbsins sem ætíð heppnast vel, þó ekki sé alltaf boðið uppá formkökur, kleinur eða flatkökur.

Engin er skyldug til að vera með en allar eru velkomnar.

Það hefur sýnt sig sem ætlað var í upphafi að í kvennaklúbbnum hafa konurnar fengið tækifæri til að kynnast, svo þær njóti betur þeirra ferða og viðburða sem  í boði eru.

 

Rauðholti 9

29.12.2008

Helga R.Einarsdóttir

Share