Karlakór Selfoss er að hefja vetrarstarf sitt um þessar mundir, en kórfélagar eru nýkomnir heim úr lærdómsríkri söng- og skemmtiferð til Írlands þar sem heimsóttur var karlakór sem starfar í Cork. Fóru um 100 hressir Sunnlendingar í þessa ferð.
Vetrarstarfið
Nú taka hefðbundnar æfingar við, til undirbúnings því söngstarfi sem framundan er og má þar nefna tónleika ásamt Karlakórnum Þröstum úr Hafnarfirði og fara þeir fram í Selfosskirkju í nóvember. Þá verða tvennir hefð-bundnir jólatónleikar uppúr miðjum desember. Eftir áramótin verður aðaláherslan lögð á undirbúning vortónleikanna sem hefjast skv. venju á sumardaginn fyrsta, auk annarra tilfallandi verkefna og má þar t.d. nefna vorferð til Vestmannaeyja.
Nýliðakvöld
Nýir félagar eru ávallt velkomnir til liðs við Karlakór Selfoss og verður sérstakt nýliðakvöld haldið fimmtudaginn 11. október kl. 20:00 í salarkynnum kórsins við Eyraveg. Þar verður starfsemi kórsins kynnt, auk þess sem nýir söngmenn verða staðsettir, hver eftir sínu raddsviði (bassar og tenórar). Eru áhugasamir söngmenn á Selfossi og nágrenni hvattir til að mæta.
Æfingar
Æfingar Karlakórs Selfoss fara fram á mánudagskvöldum í Karlakórshúsinu við Eyraveg 53. Hefjast þær kl. 20:00 og standa yfir til kl. 22:30, með einu kaffihlé. Fyrsta formlega æfingin er mánudaginn 15. október og þá verður lagaval vetrarins kynnt. Stjórnandi kórsins og undirleikari í vetur verður Jón Bjarnason, en hann hefur starfað með Karlakór Selfoss frá 2011. Formaður Karlakórs Selfoss er Ómar Baldursson, og gefur fúslega allar upplýsingar um kórinn í síma 840 5572.