Category Archives: Tónleikar

50. vortónleikar Karlakórs Selfoss

korinn

Á sumardaginn fyrsta, 23. apríl, heldur Karlakór Selfoss sína fimmtugustu vortónleika í Selfosskirkju. Þeim verður síðan fylgt eftir með tónleikum í Selfosskirkju 28. apríl, í Fella- og Hólakirkju 30. apríl og með lokatónleikum á Flúðum laugardaginn 2. maí.

Kórinn hefur aldrei verið jafn fjölmennur og í vetur en 72 menn hafa stundað stífar en skemmtilegar æfingar. Kórinn nýtur leiðsagnar tveggja frábærra fagmanna sem gera miklar kröfur en veita líka góða leiðsögn og kennslu, þ.e. Lofts Erlingssonar, stjórnanda kórsins til 15 ára og Jóns Bjarnasonar undirleikara og er full ástæða til að þakka þeim frábært starf og samvinnu.

Á efnisskrá tónleikanna er 21 lag sem sum hafa fylgt kórnum frá upphafi, nokkur eru sígild karlakóralög með átakanlegum mildum köflum og síðan átakamiklum og kraftmiklum hápunktum. Þá flytur kórinn léttari lög í bland við nýútsett lög fyrir kórinn.

Til heiðurs heimabyggð okkar byrja tónleikarnir á fjórum lögum um héraðið okkar Árnesþing, förum um Þjórsá, frá Flóanum og upp í Háfjöllin. Þaðan tengjum við okkur með fjöllum yfir í kulda og söknuð, förum um Þokufjöll, Er haustið ýfir, um Dimma daga, skoðum Frostrósir og syngjum Söknuð til heiðurs Vilhjálmi Vilhjálmssyni sem hefði orðið sjötugur nú í apríl, en léttum andann og ljúkum fyrir hlé með því að „syngja burtu sorgir“ í Veraldarvísum, þar sem tveir kórfélagar syngja tvísöng. Eftir hlé syngjum við um sól, bjartar nætur og stúlkur en lokakaflinn eru svo heimspekilegar hugleiðingar, von um betra líf, óperukórarnir „Gullnu vængir“ og „Hermannakórinn“ hylling fósturjarðarinnar og forfeðranna með „Heill yður íslensku landnámsmenn“.

Veturinn hefur verið óvenju annasamur með jólaprógrammi, æfingum og upptökum á geisladiski og vaxandi tækifærissöng. Þá hélt kórinn glæsilega afmælishátíð 6. mars sl. í tilefni 50 ára afmælisins þar sem frumkvöðlunum var þakkað, sagan rifjuð upp, sungið og dansað.

Kórfélagar hafa lagt sig fram um að mæta vel til æfinga og söngs í allan vetur og hlakka til að flytja afrakstur vetrarstarfsins fyrir gesti sína, nú þegar vorið er á næsta leiti.

Share