Ásgeir Sigurðsson

Minningarorð

Einn af stjórnendum Karlakórs Selfoss í samtals 13 ár er fallinn frá og með örfáum orðum viljum við minnast góðs leiðbeinanda og félaga.

Ásgeir Sigurðsson fæddist 11. nóvember 1933. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi miðvikudaginn 15. október sl.

Ásgeir fluttist að Selfossi árið 1957 og opnaði hér rakarastofu. Hann lét einnig fljótlega til sín taka á tónlistarsviðinu, var ráðinn kennari við Tónlistarskóla Árnesinga og síðar ráðinn skólastjóri. Hann stofnaði Lúðrasveit Selfoss 1958 og stjórnaði henni um langt árabil.

Ásgeir Sigurðsson tók við stjórn Karlakórs Selfoss haustið 1973 og með honum störfuðu sem undirleikarar Jóhanna Guðmundsdóttir og Björgvin Þ. Valdimarsson.

Á þessum fyrstu starfsárum Ásgeirs með Karlakór Selfoss var starfsemin kraftmikil og tók kórinn til flutnings fjölmörg lög sem Ásgeir útsetti af einstakri smekkvísi og það voru ekki bara ,,venjuleg karlakóralög” heldur einnig vinsæl dægurlög og fjölmörg þekkt jólalög. Og hann hélt áfram að útsetja fyrir kórinn löngu eftir að hann hætti sem stjórnandi. Hann lét af störfum vorið 1983, en tók aftur við stjórn Karlakórs Selfoss haustið 1985 og hélt um tónsprotann til vors 1988.

Ásgeiri var ætíð umhugað um framgang kórsins, spurði gjarna um starfið ef við hittumst á förnum vegi og sótti tónleika reglulega.

Á rúmlega sextíu ára starfsferli Karlakórs Selfoss hefur kórinn átt því láni að fagna að hafa notið starfskrafta marga hæfra stjórnenda. Einn af þessum frábæru stjórnendum var Ásgeir Sigurðsson. Á skilnaðarstund er Ásgeiri Sigurðssyni þökkuð einstaklega ljúf leiðsögn og samvinna sem félögunum í Karlakór Selfoss verður ætíð minnisstæð. Börnum hans og öðrum aðstandendum sendum við innilegar samúðarkveðjur.

F. h. félaga í Karlakór Selfoss,

Valdimar Bragason.

Share