Vortónleikar 2024

Karlakór Selfoss

Vortónleikar 2024

Það er 59 ára gömul hefð fyrir vortónleikum Karlakórs Selfoss á sumardaginn fyrsta. Og nú, þegar hillir undir lok á tiltölulega þægilegum vetri, boða kórfélagar til tónleika í Selfosskirkju að kvöldi sumardagsins fyrsta, þann 25. apríl, kl. 20:00. Á æfingum í vetur hafa um 60-70 félagar mætt á hverju mánudagskvöldi, og auðvita hefur kórinn komið fram við ýmis tækifæri. Má nefna að Karlakór Selfoss tók þátt í veglegum 40 ára stórtónleikum Lúðrasveitar Þorlákshafnar 13. apríl sl. og svo hefur kórinn sungið við ófáar jarðarfarir á liðnum vetri.

Snemma síðastliðið haust var kynnt fyrir kórfélögum metnaðarfull söngdagskrá sem tekur m.a. mið af fyrirhugaðri söngferð Karlakórs Selfoss til Salzburg í Austurríki í sumar. Meðal laga sem tengjast Austurríkisferðinni má nefna Dóná svo blá, Alparós og Vín, Vín, þú aðeins ein. Og meðal nýrra verka sem kórinn hefur æft í vetur er lagði Borgin við ána þar sem Valgeir Guðjónsson er höfundur bæði lags og texta. Auðvita eru svo einnig hefðbundin ramm-íslensk karlakórslög á dagskránni.

Þeir eru sem fyrr í fararbroddi Skarphéðinn Þór Hjartarson stjórnandi kórsins og Jón Bjarnason píanóleikari, en samstarfið við þá félaga hefur gengið vel undanfarin ár.

Sem fyrr segir verða tóleikar haldnir í Selfosskirkju á sumardaginn fyrsta og síðan verða tónleikar nr. 2 haldnir í Selfosskirkju þriðjudaginn 30. apríl kl. 20:00 og svo verður sungið í Fella- og Hólakirkju í Reykjavík fimmtudaginn 2. maí kl. 20:00. Lokatónleikar þetta vorið verða laugardaginn 4. maí í Skálholtsdómkirkju kl. 17:00. 

Aðgöngumiðaverð er kr. 4000.

Share

Vortónleikar 2023

Vortónleikar Karlakórs Selfoss 2023

Sumardagurinn fyrsti markar tímamót í hugum flestra Íslendinga. Þá er erfiður vetur að baki og framundan er vorið og sumarið. – Karlakór Selfoss hefur undanfarin 58 ár fagnað vorinu með tónleikum sem nú verða haldnir í Selfosskirkju að kvöldi fyrsta sumardags, þann 20. apríl kl. 20:00.

Kórfélagar hafa samviskusamlega æft í vetur vandaða söngdagskrá sem inniheldur fjölmörg ný verk, sem ekki hafa verið flutt af karlakórum fyrr, og efnisskráin er hæfilega blönduð af hefðbundnum karlakórslögum. Við nýju verkin njótum við þess að stjórnandi kórsins, Skarphéðinn Þór Hjartarson, er flínkur útsetjari og er um helmingur laganna útsettur fyrir kórinn af honum. Skarphéðinn hefur starfað með Karlakór Selfoss í 8 ár. Píanóleikari kórsins, Jón Bjarnason, hefur starfað með Karlakór Selfoss í 12 ár.

Í upphafi starfsárs bættist karlakórnum góður liðsauki, því fjölmargir söngglaðir menn gengu í kórinn og hafa staðið sig vel á æfingum í vetur. Trúlega hefur Karlakór Selfoss ekki verið fjölmennari en nú. Má nefna að við myndatöku í vor mættu 52 félagar en 20 piltar voru fjarverandi.
Ef gluggað er í söngskrá tónleikanna er þar t.d. að finna nokkur lög (5) þeirra bræðra Jónasar og Jóns Múla Árnasona og nefna má lagið Biskupstungur eftir Bjarna Sigurðsson frá Geysi við texta Helga Seljan. Einnig má nefna lagið Hvert örstutt spor við texta Halldórs Laxness og Afmælisdiktur Þórbergs Þórðarsonar, en of langt mál yrði að gera söngskránni allri skil (22) í þessari stuttu grein.

Sem fyrr segir verða fyrstu tóleikarnir haldnir í Selfosskirkju á sumardaginn fyrsta og síðan verða tónleikar nr. 2 haldnir í Selfosskirkju þriðjudaginn 25. apríl kl. 20:00. Þá verða tónleikar í Reykjavík haldnir í Fella- og Hólakirkju fimmtudaginn 27. apríl kl. 20:00 og lokatónleikar starfsársins verða laugardaginn 29. apríl í Skálholtsdómkirkju kl. 17:00. – Aðgöngumiðaverð er kr. 4000.

Share

Frestun tónleika

Vegna Covid-19 hefur allt starf Karlakór farið úr skorðum og verðum við því miður að fresta tónleikum okkar í vor fram á haustið en ákveðið hefur verið að tónleikar verði í Selfosskirkju 28.10 og 30.10 og í Skálholtsdómkirkju 31.10.

Share

Jólastund

Jólastund Karlakórs Selfoss framundan

Á aðventunni er ágætt að setjast niður, gleðja og efla andann og njóta lífsins í góðu umhverfi. Ekki er verra við slík tækifæri að hlýða á fallega jólatónlist í flutningi Karlakórs Selfoss. Eitt er víst að alltaf verður ákaflega gaman þá.

Jólastund Karlakórs Selfoss verður í Skálholtsdómkirkju mánudagskvöldið 9. desember nk. og hefst kl. 20:30, en hin síðari er í Selfosskirkju viku síðar, 16. desember og hefst kl. 20.

Á efnisskrá fá allir eitthvað fallegt, jólalög úr ýmsum áttum í bæði þekktum og nýjum útsetningum. 

Alda Ingibergsdóttir syngur einsöngslög með kórnum, stjórnandi er Skarphéðinn Þór Hjartarson og undirleikur er í höndum Jóns Bjarnasonar. 

Aðgangur er ókeypis, en tekið er á móti framlögum til líknarmála. 

Share