Aðalfundur Karlakórs Selfoss

Aðalfundur Karlakórs Selfoss var haldinn mánudagskvöldið 29. ágúst 2016 og auk venjulegra aðalfundarstarfa var kosin ný stjórn og nýr formaður í stað Gísla Á Jónssonar sem verið hefur formaður síðastliðin 10 ár og eru honum þökkuð hans störf þessi ár.

Ný stjórn kórsins er þannig skipuð í dag.

Formaður: Ómar Baldursson

Gjaldkeri : Þórir Haraldsson

Meðstjórnendur:

Björgvin Magnússon, Óskar Þorsteinsson, Björgvin Snorrason og Bjarni Ingimarsson.

Æfingar kórsins munu síðan byrja mánudagskvöldið 3. október og eru allir sem áhuga hafa á söng hvattir til að mæta á þessa fyrstu æfingu þar sem alltaf er pláss fyrir söngmenn.

Share

Að loknum vortónleikum

Að loknum vortónleikum viljum við í Karlakór Selfoss þakka öllum þeim sem komu á tónleika okkar. Nú er hinu hefðbundna starfi kórsins lokið fram á haust en núna í byrjun júní leggjum við land undir fót með ferð til Bolzano á Ítalíu þar sem haldnir verða einir tónleikar. Gleðilegt sumar.

Share

Vortónleikar Karlakórs Selfoss

KKS 2016

Árleg vortónleikaröð Karlakórs Selfoss hefst með tónleikum í Selfosskirkju á sumardaginn fyrsta, 21. apríl næstkomandi kl. 20.30. Verður þeim fylgt eftir með tónleikum í Selfosskirkju þriðjudaginn 26. apríl kl. 20.30, í Fella- og Hólakirkju 28. apríl kl. 20.00 og með lokatónleikum á Flúðum laugardaginn 30. apríl kl. 20.30. 

Sl. haust hætti Lofur Erlingsson, sem verið hafði söngstjóri Karlakórs Selfoss í 15 ár við frábæran orðstí.  Lofti og Helgu Kolbeinsdóttur, eiginkonu hans, er þökkuð samfylgdin með kórnum og sérstaklega fyrir góða leiðsögn og mikinn faglegan metnað sem skilaði sér til söngmanna og áheyrenda.

Nýr stjórnandi

Karlakór Selfoss réði í september nýjan stjórnanda; Skarphéðin Þór Hjartarson, tónlistarkennara, sem hefur æft og stjórnað kórnum í vetur, en hann hefur m.a. getið sér gott orð fyrir útsetningar og nýtur kórinn þess þegar á fyrsta starfsári undir hans stjórn og syngur fjögur lög í útsetningum hans. Jón Bjarnason, organisti í Skálholti, er áfram undirleikari og aðstoðarmaður við raddþjálfun og æfingar.

Annasamt starfsár

Veturinn hefur að vanda verið annasamur hjá Karlakór Selfoss, mörg skemmtileg og krefjandi verkefni og ber þar hæst þátttaka í Kötlumóti í Reykjanesbæ í október, sem er stærsta samkoma karlakóra og haldin á 5 ára fresti. Kórinn hefur sungið við fjölmörg tilefni innan héraðs auk þess að vera oft valinn af aðstandendum til að syngja við útfarir. Vordagskráin verður einnig flutt í söngferð kórsins til Norður-Ítalíu í byrjun júní þegar um 50 kórmenn halda utan. Þá hafa kórmenn unnið að endurbótum á félagsheimili sínu og nú í mars var tekið í notkun nýtt veislu-eldhús sem bætir mjög aðstöðu til veisluhalds í salnum sem tekur um 170 manns í sæti.

Fjölbreytt lagaval 

Á efnisskrá vortónleikanna í ár eru yfir 20 lög og kennir þar ýmissa grasa, allt frá þekktustu karlakóralögum og sjómannalögum, til alþekktra slagara og dægurlaga sem kórinn hefur haft mikla ánægju af að æfa og vonar að áheyrendum líki. Má þar t.d. nefna stórverkin Brennið þið vitar og Brimlending. Og einnig lögin sem stjórnandinn okkar hefur útsett, en þau eru; Eyjan hvíta, Ísland er land þitt, Vor í Vaglaskógi,  Vertu sæl mey og Ég er kominn heim (Ferðalok).

Þá verður einnig frumflutt lagið Mig langar heim sem Örlygur Benediktsson samdi og færði Karlakór Selfoss í fimmtugs afmælisgjöf í fyrravor og er samið við ljóð heimamannsins Frímanns Einarssonar.

Share

Jólatónleikar í Selfosskirkju:

Kvöldstund með Karlakórnum og Skálholtskórnum

Þriðjudaginn 15. desember nk. kl. 20.00, bjóða Karlakór Selfoss og Skálholtskórinn til ókeypis jólatónleika í Selfosskirkju. 

Kórarnir hafa áður boðið til svona tónleika sem hafa verið vel sóttir, enda er þetta notaleg stund við kertaljós í fallegu umhverfi kirkjunnar.

Sóknarpresturinn, sr. Guðbjörg Arnardóttir, flytur gestum fallegan boðskap og kórarnir syngja jólalög og rétt er að árétta að aðgangur er ókeypis.

Stjórnandi Karlakórs Selfoss er Skarphéðinn Þór Hjartarson og Jón Bjarnason stjórnar Skálholtskórnum, en Þóra Gylfa­dóttir sópran­söngkona syngur einsöng með Skálholtskórnum.

 

Geisladiskur

Sl. vor gaf Karlakór Selfoss út geisladisk í tilefni 50 ára afmælis kórsins. Vart þarf að nefna að diskurinn er tilvalin jólagjöf til þeirra sem kunna að meta karlakóratónlist, en diskurinn sem kostar 2.500 kr. fæst hjá kórfélögum og í afgreiðslu Prentmets Suðurlands, í Sólningu á Selfossi og í BYKO á Selfossi.

Share

Vetrarstarf Karlakórs Selfoss að hefjast

 

12113469_1014304195257363_4274601256518867972_o

Formlegt vetrarstarf Karlakórs Selfoss er að hefjast um þessar mundir. Kórinn er reyndar búinn að ljúka einu verkefni í haust, sem var þátttaka í Kötlumóti, söngmóti sunnlenskra karlakóra sem haldið var í Reykjanesbæ um síðustu helgi, ásamt og með 16 öðrum kórum. Var það mikil söngveisla.

En nú eru æfingar að hefjast á fullu fyrir 51. starfsár kórsins og nýir félagar eru velkomnir í hópinn. Æft er á mánudagskvöldum kl. 20.00 til 22.30 í húsnæði kórsins að Eyravegi 67 og undanfarin ár hafa rúmlega 70 hressir söngmenn sungið með Karlakór Selfoss.

Á hverju starfsári kemur kórinn víða fram. Viðamestir eru vortónleikarnir sem haldnir eru á sumardaginn fyrsta og verkefnin framundan eru fjölmörg. Má þar nefna þátttöku í Aðventukvöldi í Selfosskirkju sunnudaginn 6. desember, kórinn syngur á jólatónleikunum Hátíð í bæ, miðvikudagskvöldið 9. desember og svo heldur Karlakór Selfoss sína árlegu jólastund í Selfosskirkju miðvikudaginn 16. desember. Mjög hefur færst í vöxt undanfarin ár að kórinn sé pantaður á hvers kyns mannamót, afmæli og við jarðarfarasöng.

Búið er að móta söngdagskrá kórsins fyrir komandi starfsár og einkennist hún af léttleika og  nýjum lögum í bland við hefðbundin karlakóralög.

Nýr stjórnandi Karlakórs Selfoss er Skarphéðinn Þór Hjartarson og píanóleikari er Jón Bjarnason. Formaður kórsins er Gísli Á. Jónsson.

 

 

Share