Jólatónleikar í Selfosskirkju:

Kvöldstund með Karlakórnum og Skálholtskórnum

Þriðjudaginn 15. desember nk. kl. 20.00, bjóða Karlakór Selfoss og Skálholtskórinn til ókeypis jólatónleika í Selfosskirkju. 

Kórarnir hafa áður boðið til svona tónleika sem hafa verið vel sóttir, enda er þetta notaleg stund við kertaljós í fallegu umhverfi kirkjunnar.

Sóknarpresturinn, sr. Guðbjörg Arnardóttir, flytur gestum fallegan boðskap og kórarnir syngja jólalög og rétt er að árétta að aðgangur er ókeypis.

Stjórnandi Karlakórs Selfoss er Skarphéðinn Þór Hjartarson og Jón Bjarnason stjórnar Skálholtskórnum, en Þóra Gylfa­dóttir sópran­söngkona syngur einsöng með Skálholtskórnum.

 

Geisladiskur

Sl. vor gaf Karlakór Selfoss út geisladisk í tilefni 50 ára afmælis kórsins. Vart þarf að nefna að diskurinn er tilvalin jólagjöf til þeirra sem kunna að meta karlakóratónlist, en diskurinn sem kostar 2.500 kr. fæst hjá kórfélögum og í afgreiðslu Prentmets Suðurlands, í Sólningu á Selfossi og í BYKO á Selfossi.

Share

Vetrarstarf Karlakórs Selfoss að hefjast

 

12113469_1014304195257363_4274601256518867972_o

Formlegt vetrarstarf Karlakórs Selfoss er að hefjast um þessar mundir. Kórinn er reyndar búinn að ljúka einu verkefni í haust, sem var þátttaka í Kötlumóti, söngmóti sunnlenskra karlakóra sem haldið var í Reykjanesbæ um síðustu helgi, ásamt og með 16 öðrum kórum. Var það mikil söngveisla.

En nú eru æfingar að hefjast á fullu fyrir 51. starfsár kórsins og nýir félagar eru velkomnir í hópinn. Æft er á mánudagskvöldum kl. 20.00 til 22.30 í húsnæði kórsins að Eyravegi 67 og undanfarin ár hafa rúmlega 70 hressir söngmenn sungið með Karlakór Selfoss.

Á hverju starfsári kemur kórinn víða fram. Viðamestir eru vortónleikarnir sem haldnir eru á sumardaginn fyrsta og verkefnin framundan eru fjölmörg. Má þar nefna þátttöku í Aðventukvöldi í Selfosskirkju sunnudaginn 6. desember, kórinn syngur á jólatónleikunum Hátíð í bæ, miðvikudagskvöldið 9. desember og svo heldur Karlakór Selfoss sína árlegu jólastund í Selfosskirkju miðvikudaginn 16. desember. Mjög hefur færst í vöxt undanfarin ár að kórinn sé pantaður á hvers kyns mannamót, afmæli og við jarðarfarasöng.

Búið er að móta söngdagskrá kórsins fyrir komandi starfsár og einkennist hún af léttleika og  nýjum lögum í bland við hefðbundin karlakóralög.

Nýr stjórnandi Karlakórs Selfoss er Skarphéðinn Þór Hjartarson og píanóleikari er Jón Bjarnason. Formaður kórsins er Gísli Á. Jónsson.

 

 

Share

Nýr söngstjóri

SÞH

Karlakór Selfoss hefur ráðið nýjan söngstjóra til kórsins og er það Skarphéðinn Þór Hjartarsson og bjóðum við hann velkominn til starfa.

Skarphéðinn Þór Hjartarson er fæddur og uppalinn í Kópavogi.
Hann lauk tónmenntakennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1987 og hefur starfað við tónmenntakennslu síðan.
Hann stundaði söngnám hjá Halldóri Vilhelmssyni, Sieglinde Kahmann og Jóni Þorsteinssyni.
Skarphéðinn hefur sungið með mörgum kórum og sönghópum m.a: Rúdolf, MK kvartettinum, Schola Cantorum, kammerkórnum Carminu, karlakórnum Voces Masculorum og Kór Íslensku Óperunnar.
Hann hefur sungið í mörgum uppfærslum Íslensku Óperunnar bæði í kór og einsöngvari.
Skarphéðinn hefur verið afkastamikill útsetjari og útsett mikið af tónlist fyrir blandaða kóra og smærri hópa.

 

Share

Nýr geisladiskur

Elfur tímans framhlið

Karlakór Selfoss hefur í tilefni 50 ára afmælis síns gefið út sinn fjórða geisladisk sem ber nafnið Elfur tímans. Nafn disksins er sótt í Næturljóð Jóns frá Ljárskógum og vísar til þess að ekkert fær stöðvað tímann sem er líkt og fjót er streymir stöðugt áfram og safnar minningum um sigra og sorgir.

Á diskinum eru fjölbreytt kórverk sem eru mörg sérstaklega útsett fyrir kórinn, jafnt hefðbundin karlakóralög og nýleg lög.

Lögin eru sótt í rússneskan tónlistararf, miðevrópskan og sígildan Chopin, til Norðurlandanna, en að meirihluta til íslenskra tónskálda og textahöfunda. Á diskinum eru 13 lög sem kórinn hefur flest flutt á tónleikum sínum á undanförnum árum. Nokkur laganna eiga auðvitað sterk tengsl við sunnlenskan tónlistararf þar sem lag eða texti, eða bæði, eru eftir Sunnlendinga, svo sem lögin Sumarkvöld og Háfjöllin eftir Sigurð Ágústsson og Veraldarvísur Lofts S. Loftssonar þar sem tveir ungir kórfélagar, þeir Hermann Ingi Magnússon og Róbert Aron Pálmason syngja tvísöng. Þá er einnig seilst út fyrir hefðbundin karlakóralög. Þannig er lagið Söknuður sem þekkt er í flutningi Vilhjálms Vilhjálmssonar, hér í kórútsetningu, nýleg útsetning af laginu Þokufjöll sem er úr Hringadróttinssögu og ný útsetning af laginu Líttu sérhvert sólarlag en Bragi Valdimar Skúlason samdi bæði lag og texta.

Inn á diskinn sungu 62 félagar undir stjórn Lofts Erlingssonar við undirleik Jóns Bjarnasonar, upptökustjórn annaðist Sigurður Rúnar Jónsson.

Diskurinn kostar 2.500 kr. og er til sölu hjá kórmönnum, hjá Sólningu á Selfossi, Rakarastofu Björns & Kjartans, BYKO og Evítu og að sjálfsögðu á vortónleikaröð kórsins sem hófust á sumardaginn fyrsta, 23. apríl, í Selfosskirkju. Þeim verður síðan fylgt eftir með tónleikum í Selfosskirkju 28. apríl, í Fella- og Hólakirkju 30. apríl og með lokatónleikum á Flúðum laugardaginn 2. maí.

Share

50. vortónleikar Karlakórs Selfoss

korinn

Á sumardaginn fyrsta, 23. apríl, heldur Karlakór Selfoss sína fimmtugustu vortónleika í Selfosskirkju. Þeim verður síðan fylgt eftir með tónleikum í Selfosskirkju 28. apríl, í Fella- og Hólakirkju 30. apríl og með lokatónleikum á Flúðum laugardaginn 2. maí.

Kórinn hefur aldrei verið jafn fjölmennur og í vetur en 72 menn hafa stundað stífar en skemmtilegar æfingar. Kórinn nýtur leiðsagnar tveggja frábærra fagmanna sem gera miklar kröfur en veita líka góða leiðsögn og kennslu, þ.e. Lofts Erlingssonar, stjórnanda kórsins til 15 ára og Jóns Bjarnasonar undirleikara og er full ástæða til að þakka þeim frábært starf og samvinnu.

Á efnisskrá tónleikanna er 21 lag sem sum hafa fylgt kórnum frá upphafi, nokkur eru sígild karlakóralög með átakanlegum mildum köflum og síðan átakamiklum og kraftmiklum hápunktum. Þá flytur kórinn léttari lög í bland við nýútsett lög fyrir kórinn.

Til heiðurs heimabyggð okkar byrja tónleikarnir á fjórum lögum um héraðið okkar Árnesþing, förum um Þjórsá, frá Flóanum og upp í Háfjöllin. Þaðan tengjum við okkur með fjöllum yfir í kulda og söknuð, förum um Þokufjöll, Er haustið ýfir, um Dimma daga, skoðum Frostrósir og syngjum Söknuð til heiðurs Vilhjálmi Vilhjálmssyni sem hefði orðið sjötugur nú í apríl, en léttum andann og ljúkum fyrir hlé með því að „syngja burtu sorgir“ í Veraldarvísum, þar sem tveir kórfélagar syngja tvísöng. Eftir hlé syngjum við um sól, bjartar nætur og stúlkur en lokakaflinn eru svo heimspekilegar hugleiðingar, von um betra líf, óperukórarnir „Gullnu vængir“ og „Hermannakórinn“ hylling fósturjarðarinnar og forfeðranna með „Heill yður íslensku landnámsmenn“.

Veturinn hefur verið óvenju annasamur með jólaprógrammi, æfingum og upptökum á geisladiski og vaxandi tækifærissöng. Þá hélt kórinn glæsilega afmælishátíð 6. mars sl. í tilefni 50 ára afmælisins þar sem frumkvöðlunum var þakkað, sagan rifjuð upp, sungið og dansað.

Kórfélagar hafa lagt sig fram um að mæta vel til æfinga og söngs í allan vetur og hlakka til að flytja afrakstur vetrarstarfsins fyrir gesti sína, nú þegar vorið er á næsta leiti.

Share