
Það er mánudagskvöld. Þú þarft að hitta mennina. Þeir taka vel á móti þér, og hlakka til að syngja með þér í vetur. Það er enda fátt skemmtilegra en að hefja upp raust sína og heyra hljóminn verða til – harmoní heitir þetta víst á slæmri íslensku. Þú tekur vel undir, loksins léstu verða af þessu. Þú kemur heim, þreyttur eftir góða æfingu, en gengur ánægður til náða. Heyrir kannski óminn af Árnesþingi í huganum inn í nóttina. Dásamlegt!
Við í Karlakór Selfoss erum að auglýsa eftir nýjum félögum, ungum sem öldnum, fræknum sem fávísum í tónfræðinni en fyrst og fremst áhugasömum söngmönnum sem vilja ganga í okkar góða félagsskap. Hafðu ekki áhyggjur af því að kunna ekki lögin eða textana…. það kemur allt saman í góðri samvinnu við okkur sem erum búnir að vera þarna um árabil. Þetta er ekkert bundið við að búa á Selfossi, það eru karlar í kórnum sem búa hér og þar á suð-vesturhorni landsins, upp til sveita og austur í Flóa.
Það er margt spennandi og skemmtilegt sem liggur fyrir í vetur. Við byrjum á að æfa okkur á jólalögunum enda að fara að taka upp jólaplötu. Svo eru það tónleikar bæði í vetur og vor, heimsóknir og annað flandur. Æfingar hefjast þann 22. september kl. 19:30 og eru vikulega. Ágætt að vera mættur aðeins fyrr. Við erum í karlakórsheimilinu okkar að Eyravegi 67 á Selfossi.
Hlakka til að sjá þig!