Category Archives: Útgáfa

Nýr geisladiskur

Elfur tímans framhlið

Karlakór Selfoss hefur í tilefni 50 ára afmælis síns gefið út sinn fjórða geisladisk sem ber nafnið Elfur tímans. Nafn disksins er sótt í Næturljóð Jóns frá Ljárskógum og vísar til þess að ekkert fær stöðvað tímann sem er líkt og fjót er streymir stöðugt áfram og safnar minningum um sigra og sorgir.

Á diskinum eru fjölbreytt kórverk sem eru mörg sérstaklega útsett fyrir kórinn, jafnt hefðbundin karlakóralög og nýleg lög.

Lögin eru sótt í rússneskan tónlistararf, miðevrópskan og sígildan Chopin, til Norðurlandanna, en að meirihluta til íslenskra tónskálda og textahöfunda. Á diskinum eru 13 lög sem kórinn hefur flest flutt á tónleikum sínum á undanförnum árum. Nokkur laganna eiga auðvitað sterk tengsl við sunnlenskan tónlistararf þar sem lag eða texti, eða bæði, eru eftir Sunnlendinga, svo sem lögin Sumarkvöld og Háfjöllin eftir Sigurð Ágústsson og Veraldarvísur Lofts S. Loftssonar þar sem tveir ungir kórfélagar, þeir Hermann Ingi Magnússon og Róbert Aron Pálmason syngja tvísöng. Þá er einnig seilst út fyrir hefðbundin karlakóralög. Þannig er lagið Söknuður sem þekkt er í flutningi Vilhjálms Vilhjálmssonar, hér í kórútsetningu, nýleg útsetning af laginu Þokufjöll sem er úr Hringadróttinssögu og ný útsetning af laginu Líttu sérhvert sólarlag en Bragi Valdimar Skúlason samdi bæði lag og texta.

Inn á diskinn sungu 62 félagar undir stjórn Lofts Erlingssonar við undirleik Jóns Bjarnasonar, upptökustjórn annaðist Sigurður Rúnar Jónsson.

Diskurinn kostar 2.500 kr. og er til sölu hjá kórmönnum, hjá Sólningu á Selfossi, Rakarastofu Björns & Kjartans, BYKO og Evítu og að sjálfsögðu á vortónleikaröð kórsins sem hófust á sumardaginn fyrsta, 23. apríl, í Selfosskirkju. Þeim verður síðan fylgt eftir með tónleikum í Selfosskirkju 28. apríl, í Fella- og Hólakirkju 30. apríl og með lokatónleikum á Flúðum laugardaginn 2. maí.

Share