Category Archives: Uncategorized

Vetrarstarf Karlakórs Selfoss að hefjast

 

12113469_1014304195257363_4274601256518867972_o

Formlegt vetrarstarf Karlakórs Selfoss er að hefjast um þessar mundir. Kórinn er reyndar búinn að ljúka einu verkefni í haust, sem var þátttaka í Kötlumóti, söngmóti sunnlenskra karlakóra sem haldið var í Reykjanesbæ um síðustu helgi, ásamt og með 16 öðrum kórum. Var það mikil söngveisla.

En nú eru æfingar að hefjast á fullu fyrir 51. starfsár kórsins og nýir félagar eru velkomnir í hópinn. Æft er á mánudagskvöldum kl. 20.00 til 22.30 í húsnæði kórsins að Eyravegi 67 og undanfarin ár hafa rúmlega 70 hressir söngmenn sungið með Karlakór Selfoss.

Á hverju starfsári kemur kórinn víða fram. Viðamestir eru vortónleikarnir sem haldnir eru á sumardaginn fyrsta og verkefnin framundan eru fjölmörg. Má þar nefna þátttöku í Aðventukvöldi í Selfosskirkju sunnudaginn 6. desember, kórinn syngur á jólatónleikunum Hátíð í bæ, miðvikudagskvöldið 9. desember og svo heldur Karlakór Selfoss sína árlegu jólastund í Selfosskirkju miðvikudaginn 16. desember. Mjög hefur færst í vöxt undanfarin ár að kórinn sé pantaður á hvers kyns mannamót, afmæli og við jarðarfarasöng.

Búið er að móta söngdagskrá kórsins fyrir komandi starfsár og einkennist hún af léttleika og  nýjum lögum í bland við hefðbundin karlakóralög.

Nýr stjórnandi Karlakórs Selfoss er Skarphéðinn Þór Hjartarson og píanóleikari er Jón Bjarnason. Formaður kórsins er Gísli Á. Jónsson.

 

 

Share

Nýr söngstjóri

SÞH

Karlakór Selfoss hefur ráðið nýjan söngstjóra til kórsins og er það Skarphéðinn Þór Hjartarsson og bjóðum við hann velkominn til starfa.

Skarphéðinn Þór Hjartarson er fæddur og uppalinn í Kópavogi.
Hann lauk tónmenntakennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1987 og hefur starfað við tónmenntakennslu síðan.
Hann stundaði söngnám hjá Halldóri Vilhelmssyni, Sieglinde Kahmann og Jóni Þorsteinssyni.
Skarphéðinn hefur sungið með mörgum kórum og sönghópum m.a: Rúdolf, MK kvartettinum, Schola Cantorum, kammerkórnum Carminu, karlakórnum Voces Masculorum og Kór Íslensku Óperunnar.
Hann hefur sungið í mörgum uppfærslum Íslensku Óperunnar bæði í kór og einsöngvari.
Skarphéðinn hefur verið afkastamikill útsetjari og útsett mikið af tónlist fyrir blandaða kóra og smærri hópa.

 

Share