Vetrarstarf Karlakórs Selfoss að hefjast

 

12113469_1014304195257363_4274601256518867972_o

Formlegt vetrarstarf Karlakórs Selfoss er að hefjast um þessar mundir. Kórinn er reyndar búinn að ljúka einu verkefni í haust, sem var þátttaka í Kötlumóti, söngmóti sunnlenskra karlakóra sem haldið var í Reykjanesbæ um síðustu helgi, ásamt og með 16 öðrum kórum. Var það mikil söngveisla.

En nú eru æfingar að hefjast á fullu fyrir 51. starfsár kórsins og nýir félagar eru velkomnir í hópinn. Æft er á mánudagskvöldum kl. 20.00 til 22.30 í húsnæði kórsins að Eyravegi 67 og undanfarin ár hafa rúmlega 70 hressir söngmenn sungið með Karlakór Selfoss.

Á hverju starfsári kemur kórinn víða fram. Viðamestir eru vortónleikarnir sem haldnir eru á sumardaginn fyrsta og verkefnin framundan eru fjölmörg. Má þar nefna þátttöku í Aðventukvöldi í Selfosskirkju sunnudaginn 6. desember, kórinn syngur á jólatónleikunum Hátíð í bæ, miðvikudagskvöldið 9. desember og svo heldur Karlakór Selfoss sína árlegu jólastund í Selfosskirkju miðvikudaginn 16. desember. Mjög hefur færst í vöxt undanfarin ár að kórinn sé pantaður á hvers kyns mannamót, afmæli og við jarðarfarasöng.

Búið er að móta söngdagskrá kórsins fyrir komandi starfsár og einkennist hún af léttleika og  nýjum lögum í bland við hefðbundin karlakóralög.

Nýr stjórnandi Karlakórs Selfoss er Skarphéðinn Þór Hjartarson og píanóleikari er Jón Bjarnason. Formaður kórsins er Gísli Á. Jónsson.

 

 

Share