Vortónleikar 2018

Karlakór Selfoss vortónleikar 2018.

Senn heilsar okkur sumar og Karlakór Selfoss heldur að vanda fyrstu vortónleika sína á sumardaginn fyrsta, 19. apríl kl. 20:30 í Selfosskirkju.

Kórfélagar hófu æfingar í endaðan september og fyrstu stóru verkefnin voru aðventu- og jólatónleikar í desember sl. þar sem sungin voru jólalög á fernum tónleikum.

Eftir áramót hafa kórfélagar æft ötullega og er verkefnalistinn fyrir vortónleikana fjölbreyttur. Má þar nefna lög sem tengjast íslenskum kvikmyndum og svo óperutónlist, auk heðbundinna karlakórslaga.

Það er gæfa Karlakórs Selfoss að stjórnandi kórsins, Skarphéðin Þór Hjartarson er afbragðs útsetjari og hefur fært mörg falleg lög í prýðilegar útsetningar fyrir kórinn. Ef nokkur lög úr kvikmyndum eru tilgreind má nefna: Sönn ást úr kvikmyndinni Óðal feðranna, Þig dreymir kannske engil úr Djöflaeyjunni,  UFO úr kvikmynd Stuðmanna Með allt á hreinu, og fleiri íslensk lög og að auki eru á söngskránni nokkur lög úr erlendum kvikmyndum.

Karlakór Selfoss hefur viðhaldi þeirri hefð frá stofnun kórsin að syngja fyrstu vortónleikana á sumardaginn fyrsta, sem í ár ber uppá 19. apríl. Næstu tónleikar verða þriðjudaginn 24. apríl í Selfosskirkju kl. 20:30 og svo í Fella- og Hólakirkju fimmtudaginn 26. apríl kl. 20:00. Lokatónleikar þessa starfsárs verða á Flúðum í Félagsheimili Hrunamanna laugardagskvöldið 28. apríl kl. 20:30.

Sem fyrr segir er Skarphéðin Þór Hjartarson stjórnandi kórsins og Jón Bjarnason píanóleikari, og þess má geta hér í lokin að á næsta starfsári tekur Jón við stjórn Karlakórs Selfoss í ársleyfi Skarphéðins Þórs.

 

Share