All posts by Ómar Baldursson

Vetrarstarf Karlakórs Selfoss fer af stað mánudaginn 3. okt.

Eiginkonur, dætur, mæður og systur!

Vill nokkuð svo skemmtilega til að einhverjar ykkar lumi á góðum söngmanni sem þið gætuð séð af svona eins og eitt kvöld í viku? Einhverjum sem langar að syngja í stórum karlakór en ekki bara í sturtunni?  Ef svo er þá getur Karlakór Selfoss alltaf á sig blómum bætt.

Síðasta vetur voru um 70 strákar á öllum aldri við æfingar á mánudagskvöldum í sal Karlakórsins við Eyraveg. Ráðgert er að æfingar vetrarins hefjist 3. október, en tekið verður á móti nýjum mönnum miðvikudaginn 28. september kl. 20 í raddprufu og stutt spjall í sal kórsins að Eyravegi 67.

Nánari upplýsingar fást hjá Ómari formanni í síma 840 5572 eða á tölvupósti kks@karlakorselfoss.is .

Share

Aðalfundur Karlakórs Selfoss

Aðalfundur Karlakórs Selfoss var haldinn mánudagskvöldið 29. ágúst 2016 og auk venjulegra aðalfundarstarfa var kosin ný stjórn og nýr formaður í stað Gísla Á Jónssonar sem verið hefur formaður síðastliðin 10 ár og eru honum þökkuð hans störf þessi ár.

Ný stjórn kórsins er þannig skipuð í dag.

Formaður: Ómar Baldursson

Gjaldkeri : Þórir Haraldsson

Meðstjórnendur:

Björgvin Magnússon, Óskar Þorsteinsson, Björgvin Snorrason og Bjarni Ingimarsson.

Æfingar kórsins munu síðan byrja mánudagskvöldið 3. október og eru allir sem áhuga hafa á söng hvattir til að mæta á þessa fyrstu æfingu þar sem alltaf er pláss fyrir söngmenn.

Share

Að loknum vortónleikum

Að loknum vortónleikum viljum við í Karlakór Selfoss þakka öllum þeim sem komu á tónleika okkar. Nú er hinu hefðbundna starfi kórsins lokið fram á haust en núna í byrjun júní leggjum við land undir fót með ferð til Bolzano á Ítalíu þar sem haldnir verða einir tónleikar. Gleðilegt sumar.

Share

Vortónleikar Karlakórs Selfoss

KKS 2016

Árleg vortónleikaröð Karlakórs Selfoss hefst með tónleikum í Selfosskirkju á sumardaginn fyrsta, 21. apríl næstkomandi kl. 20.30. Verður þeim fylgt eftir með tónleikum í Selfosskirkju þriðjudaginn 26. apríl kl. 20.30, í Fella- og Hólakirkju 28. apríl kl. 20.00 og með lokatónleikum á Flúðum laugardaginn 30. apríl kl. 20.30. 

Sl. haust hætti Lofur Erlingsson, sem verið hafði söngstjóri Karlakórs Selfoss í 15 ár við frábæran orðstí.  Lofti og Helgu Kolbeinsdóttur, eiginkonu hans, er þökkuð samfylgdin með kórnum og sérstaklega fyrir góða leiðsögn og mikinn faglegan metnað sem skilaði sér til söngmanna og áheyrenda.

Nýr stjórnandi

Karlakór Selfoss réði í september nýjan stjórnanda; Skarphéðin Þór Hjartarson, tónlistarkennara, sem hefur æft og stjórnað kórnum í vetur, en hann hefur m.a. getið sér gott orð fyrir útsetningar og nýtur kórinn þess þegar á fyrsta starfsári undir hans stjórn og syngur fjögur lög í útsetningum hans. Jón Bjarnason, organisti í Skálholti, er áfram undirleikari og aðstoðarmaður við raddþjálfun og æfingar.

Annasamt starfsár

Veturinn hefur að vanda verið annasamur hjá Karlakór Selfoss, mörg skemmtileg og krefjandi verkefni og ber þar hæst þátttaka í Kötlumóti í Reykjanesbæ í október, sem er stærsta samkoma karlakóra og haldin á 5 ára fresti. Kórinn hefur sungið við fjölmörg tilefni innan héraðs auk þess að vera oft valinn af aðstandendum til að syngja við útfarir. Vordagskráin verður einnig flutt í söngferð kórsins til Norður-Ítalíu í byrjun júní þegar um 50 kórmenn halda utan. Þá hafa kórmenn unnið að endurbótum á félagsheimili sínu og nú í mars var tekið í notkun nýtt veislu-eldhús sem bætir mjög aðstöðu til veisluhalds í salnum sem tekur um 170 manns í sæti.

Fjölbreytt lagaval 

Á efnisskrá vortónleikanna í ár eru yfir 20 lög og kennir þar ýmissa grasa, allt frá þekktustu karlakóralögum og sjómannalögum, til alþekktra slagara og dægurlaga sem kórinn hefur haft mikla ánægju af að æfa og vonar að áheyrendum líki. Má þar t.d. nefna stórverkin Brennið þið vitar og Brimlending. Og einnig lögin sem stjórnandinn okkar hefur útsett, en þau eru; Eyjan hvíta, Ísland er land þitt, Vor í Vaglaskógi,  Vertu sæl mey og Ég er kominn heim (Ferðalok).

Þá verður einnig frumflutt lagið Mig langar heim sem Örlygur Benediktsson samdi og færði Karlakór Selfoss í fimmtugs afmælisgjöf í fyrravor og er samið við ljóð heimamannsins Frímanns Einarssonar.

Share